Um friðlandið

 

Þjórsárver eru ein víðáttumesta og afskekktasta gróðurvin á hálendi Íslands. Verin sjálf eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls og eru í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þjórsárver stinga í stúf við harðneskjulegt umhverfið, en þar er að finna gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með fjölbreyttu gróðurfari. Fimm af þeim sex vistgerðum sem taldar eru hafa mest verndargildi á miðhálendinu finnast á Þjórsárverasvæðinu, gilja- og lyngmóavistir, víðikjarrvist, lágstararflóavist, rústamýrarvist og hástaraflóavist. Í Þjórsárverum er eitt stærsta sífrerasvæði landsins. Á svæðinu hafa fundist alls 663 tegundir háplantna, mosa og fléttna og þar af eru tegundir sem eru skráðar á válista yfir tegundir í hættu. Í Þjórsárverum hafa sést 47 fuglategundir og hafa allt að 27 tegundir orpið á svæðinu, þar af fimm tegundir sem eru á válista.

Sérstaða Þjórsárvera og tilvist er fyrst og fremst vegna samspils jökla, vatns, jarðvegs, veðurfars, gróðurfars og dýralífs. Þjórsárver eru hluti mikilfenglegrar náttúru og landslagsheildar sem er að mestu ósnortin. 

Meginhluti Þjórsárvera og aðliggjandi svæði (375 km2) voru friðlýst árið 1981. Árið 1990 var svæðið skráð á lista Ramsarsamningsins (svæði nr. 460) og fékk þar með viðurkenningu sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði, einkum vegna auðugs fuglalífs. Alþjóðlegt mikilvægi Þjórsárvera fyrir fugla helgast einkum af heiðagæsavarpi á svæðinu. Varp annarra fugla er yfirleitt fremur strjált en sérfræðingar telja að Þjórsárver og nágrenni hafi verulega þýðingu fyrir stofna nokkurra fuglategunda þar sem Ísland gegnir þýðingarmiklu hlutverki.

Á tímabilinu 1. maí til 20. júní er umferð um og í nálægð við varplönd heiðagæsa bönnuð sbr. viðauka II, kort af svæði takmarkaðrar umferðar vegna heiðagæsavarps.

Í heild telst náttúruverndargildi Þjórsárvera mjög mikið á lands- og heimsvísu.