Umhverfistofnun - Logo

Drangar á Ströndum

Mynd: Gunnar GuðjónssonMynd: Gunnar Guðjónsson

Samstarfshópur skipaður fulltrúum Umhverfisstofnunar, landeiganda, sveitarfélagsins Árneshrepps, Minjastofnunar og umhverfis- og auðlindaráðneytisins vinnur nú að undirbúningi friðlýsingar Dranga á Ströndum í Árneshreppi. 

Umrætt svæði er hluti af víðáttumiklu samfelldu óbyggðu víðerni á Vestfjörðum. Verndargildi svæðisins er mjög hátt á bæði íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða og felst fyrst og fremst í víðerni og tilkomumiklu landslagi mótað af jöklum ísaldar. Dalir og hvilftir eru grafnar af jöklum í almennt einsleitan og mjög reglulegan jarðlagastafla. Á milli basalthraunlaga eru rauðleit setlög, oftast forn jarðvegur að uppruna. Landslag er mikilfenglegt og áhrifamikið, s.s. Drangaskörð, gróðurfar sérstakt, víðernisupplifun mikil sem og náttúrufegurð og svæðið er nær óraskað. Við ströndina er að finna menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um búsetuhætti og tíðaranda fyrri tíma. 
Drangar eru landnámsjörð, þar nam land Þorvaldur Ásvaldsson, hans sonur var Eiríkur rauði er flutti síðar til Grænlands, en sonur hans var Leifur heppni. Eiríkur bjó á Dröngum eftir föður sinn og færa má líkur að því að þar hafi Leifur sonur hans fæðst.

Markmiðið er að standa vörð um umfangsmikið óbyggt víðerni þar sem náttúran fær að þróast á eigin forsendum, varðveita og viðhalda óvenjulegu, mikilfenglegu og fjölbreyttu landslagi sem og víðsýni. Friðlýsingunni er einnig ætlað að tryggja vernd jarðminja, vistkerfa og lífríki þeirra innan svæðisins. Þá miðar friðlýsingin að því að tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið, í kyrrð og ró, einstakrar náttúru þar sem náttúrulegir ferlar eru ríkjandi og beinna ummerkja mannsins gætir lítið eða ekkert. 

Myndir: Kristín Ósk Jónasdóttir

Mynd: Kristín Ósk Jónasdóttir
Drangaskörð og Drangar

Mynd: Kristín Ósk JónasdóttirDrangaskörð séð frá Drangavík


Mynd: Kristín Ósk JónasdóttirDrangaskörð og Drangar