Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Skerjafjörður við Álftanes

Umhverfisstofnun, í samstarfi við í samstarfi við Garðabæ, umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, hefur unnið að undirbúningi friðlýsingar Skerjafjarðar við Álftanes sem friðlands, í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tillaga að friðlýsingu svæðisins var lögð fram til kynningar þann 14. júní 2021 í samræmi við 39. gr. sömu laga.


Skerjafjarðarsvæðið er undirstaða afar fjölbreytts fuglalífs allan ársins hring og er svæðið mikilvægur viðkomustaður farfugla sem hér hafa viðdvöl á leið sinni til og frá norðlægum varpslóðum. Fjörur og leirur svæðisins eru lífríkar, þar eru miklar þangfjörur og grunnsævi  með auðugu botndýralífi. Svæðið er einnig mikilvægt vegna marhálms sem hefur takmarkaða útbreiðslu hér á landi og er marhálmur ein aðal fæðutegund margæsar. 

Fuglalíf á svæðinu er fjölskrúðugt árið um kring og er m.a. mikilvægur viðkomustaður fargesta og má þar nefna margæs sem nær alþjóðlegum verndarviðmiðum. Hið sama á við um grágæsir á fjaðrafellitíma og sendling að vetri. Þarna eru fágæt fuglasvæði og hafa yfir 30 tegundir orpið og þúsundir farfugla koma við til hvíldar og fæðuöflunar á ferðum sínum milli Evrópu og heimskautasvæða á Grænlandi og í Kanada vor og haust. Mikið fuglalíf er á vetrum, s.s. þúsundir æðarfugla og hundruð gráanda, hávellna, dílaskarfa, tjalda og máfa og byggist það á víðáttumiklum og lífríkum fjörum. Einkennisfuglar á Álftanesi eru strand- og votlendisfuglar, einkum andfuglar og vaðfuglar. Æðarfugl er langalgengasti varpfuglinn á Álftanesi og nýtir fjöru- og grunnsævi umhverfis nesið til fæðuöflunar og ungauppeldis. Þetta búsvæði er undirstaða fyrir tilvist æðarfugls á nesinu og á það raunar á við um flestar aðrar fuglategundir, eins og hávellu og toppönd. Einnig sækja vaðfuglar, skarfar, máfar og kríur mikið í þetta búsvæði. 


Botndýralíf á svæðinu er auðugt á grunnsævi. Þarna eru lífríkar sjávartjarnir, fjörur og sjávarfitjar og tiltölulega lítið raskaðar klóþangsfjörur og sandmaðksleirur. Strandvistgerðir á landi og fjöruvistgerðir umhverfis Álftanes hafa hátt verndargildi enda sækir fjöldi fugla fæðu í þær.

Fuglalíf og gróðurfar á Álftanesi hefur mikið gildi á héraðs-, lands- og heimsvísu. Einnig er fræðslugildi svæðisins hátt með tilliti til lífríkis.

Friðlýsingin er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið var á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2018-2021.

Afmörkun svæðisins miðast við hnitsett mörk og eru birt á korti. Svæðið er 12,48km2 að stærð. 

Tillaga að auglýsingu

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna var til og með 23. júlí 2021. Alls bárust erindi frá 21 aðila á kynningartíma tillögunnar.

Áform um friðlýsingu svæðisins voru auglýst þann 20. apríl 2021. Frestur til að skila athugasemdum til og með 21. maí 2021.

Alls bárust sex erindi á kynningartíma áform og gerð er grein fyrir þeim í Umsögn um athugasemdir sem bárust á kynningartíma áforma um friðlýsingu  

Næstu skref:
Umhverfisstofnun ber að vísa málinu til umhverfis- og auðlindaráðherra og gera grein fyrir því hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 
Að loknum kynningartíma tillögunnar óskaði Garðabær eftir því að fá að taka tillöguna fyrir. 
Þegar afstaða Garðabæjar liggur fyrir verður málinu vísað til ráðherra til ákvörðunar.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir, ingibjorgb@ust.is og René Biasone, rene@ust.is eða í síma 591-2000.