Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Tjörnes

Mynd: Bernd Thaller - wikimedia

Mynd: Bernd Thaller - wikimedia

Kynningarfundur 

Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur svæðinu fór fram þann 15. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.

Horfa á upptöku frá fundinum

Skoða glærur frá fundinum

Um svæðið

Sveitarfélag: Tjörneshreppur

Möguleg stærð: Vegna fuglaverndar 6 km2 , vegna jarðminja 15 km2. Athygli er vakin á því að svæðin skarast.

Á Tjörnesi er að finna ein merkustu jarðlög á Íslandi sem jafnframt hafa mikið alþjóðlegt vísindagildi. Sambærilegar jarðmyndanir er ekk að finna annarsstaðar á landinu. Í lögunum má finna hraunlög, ár- og vatnaset, surtarbrand, sjávarset með steingervingum og jökulbergslög. Hraunlög og setlög á Tjörnesi endurspegla loftslagsbreytingar í upphafi ísaldar og varðveita myndanir frá jökulskeiðum og hlýskeiðum ísaldar sem finnast óvíða annarsstaðar í heiminum.

Um Tjörnes liggur Tjörnes brotabeltið, sniðgengi sem tengir saman rekhryggjakerfi Norður Atlantshafsins, það er suðurenda Kolbeinseyjarhryggsins við Norðurgosbelti landsins. Á vestanverðu Tjörnesi hafa brotahreyfingar meðal annars valdið landsigi og landrisi í gegnum jarðsöguna sem jafnframt hafa skapað sérstakar umhverfisaðstæður fyrir setmyndun.

Rétt norðan við Húsavík liggja Tjörneslögin á Köldukvíslarhraunum sem eru frá Míósen tíma um 8,5-10 milljón ára gömul og elstu jarðmyndanir á Tjörnesi. Á Tjörnesi eru tvær meginsetlagasyrpur, samtals um 1200 metra þykk, Tjörneslögin og Breiðavíkurlögin. Þau eru aðskilin með hraunlögum sem koma fram í Höskuldsvík, Höskuldsvíkurlögin.

Tjörneslögin eru um 520 metra þykk setlög með steingervingum og surtarbrandslögum. Setlögin má rekja frá Köldukvísl til Höskuldsvíkur. Hraunlag hefur verið aldursákvarðar 4,3 milljóna ára gamalt eða frá Árplíósen og út frá þessu er talið að allt að 4 milljón ára jarðlagaeyða eða mislægi sé á milli yngsta Köldukvíslarhraunsins og elsta hluta gáruskeljalaganna.

Jarðlögin á Tjörnesi endurspegla nær samfellda jarðsögu frá Árplíósen til síðari hluta ísaldar. Tjörnes er því sérstaklega mikilvægt svæði þar sem varðveittar eru heildstæðar jarðmyndanir frá upphaf Ísaldar í Norður Atlantshafi. Tjörnes er eitt af lykilsvæðum landsins í að varðveita skipulega heildarmynd og samfellt yfirlit um jarðsögu Íslands.

Svæðið hefur hátt vísindalegt gildi og þar eru alþjóðlega mikilvægar jarðminjar fyrir jarðsögutímabilið frá Síðplíósen til fyrri hluti Ísaldar í Norður Atlantshafi. Mikilvægi þeirra felst í:

  • Lífbelti steingervinga, breytingum í fánusamsetningu í tengslum við loftslagsbreytingar á mörkum Plíósen og Ísaldar (Pleistósen), ásamt sædýraflutningum milli Kyrrahafs og Atlantshafs í upphafi Ísaldar.
  • Ummerkjum Ísaldar í jarðlögum þar sem skiptast á fjórtán jökulskeið (með jökulbergi og jökulrofi) og hlýskeið (með hraunlög og sjávarsetlög). Slíkar jarðmyndanir eru óvíða í heiminum eins vel varðveitt og í Breiðavíkurlögunum á Tjörnesi.

Með ströndinni skiptast á sand- og malarfjörur og klapparfjörur. Miklar þanghrannir safnast sums staðar fyrir í fjörum og sækja vaðfuglar mikið í þarabrúkið í ætisleit, einkum á vorin. Fjörurnar eru mikilvægir viðkomustaðir farfugla og þær tegundir sem ná alþjóðlegum viðmiðum eru rauðbrystingur, sendlingur og tildra, ásamt straumönd sem óvenjumikið er af á veturna.

Ekki er gert ráð fyrir að heimalönd jarða og athafnasvæði liggi innan afmörkunar vegna vegna verndurnar svæðisins.

Steingervingar falla undir ákvæði 60. gr. náttúruverndarlaga um steindir og steingervinga.

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Tjörnes - Fuglar

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Tjörnes - Jarðminjar

Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun

Mögulegar verndarráðstafanir

1. Vegna líffræðilegs fjölbreytileika og sérstöðu svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem náttúruvættis skv. 48. gr. náttúrverndarlaga og friðlands skv. 49. gr. sömu laga.

Við friðlýsingu er heimilt að hafa svæðisskiptingu innan heildarsvæðisins vegna mismunandi fyrirbæra sem verið er að vernda. Sem dæmi um friðlýst svæði með svæðisskiptingu eru landslagsverndarsvæðin í Þjórsárdal og Dyrfjöllum.

Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.

Ekki hefur verið friðlýst sérstaklega svæði sem felur í sér bæði friðland og náttúruvætti en sambærileg friðlýst svæði eru Látrabjarg vegna fuglaverndar og Fossvogsbakkar vegna jarðminja.

Með friðlýsingu svæðisins sem náttúruvætti væri verið að varðveita einstakar náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Náttúruvætti geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín. 

Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl. Sambærileg friðlýsing vegna fuglaverndar er friðlandið Látrabjarg.

2. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun fuglanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.

Friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021 en sambærileg friðun fugla er ekki til.

Mögulegar takmarkanir/innviðir

Ekki er talin ástæða til að takmarka aðgengi gesta á svæðinu en styrkja gæti þurft innviði til stýringar og öryggis gesta s.s. stika gönguleiðir, uppsetning skilta og bæta aðkomu.

Ekki er gert ráð fyrir að heimalönd, s.s. tún og lóðir falli innan verndarsvæðisins. Verndun svæðisins takmarkar ekki þá landnotkun sem fyrir er á svæðinu.

Tryggja þarf sjálfbæra nýtingu hlunninda s.s. vegna eggjatöku.

Mögulega gæti þurft að takmarka notkun dróna á svæðinu á varptíma.

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Straumandar (vetur)
  • Rauðbrystings (far)
  • Sendlings (far)
  • Tildru (far)
  • Jarðfræði (Grunnflokkur: Berggrunnur; Flokkur: Jarðsaga; Gerð: Steingervingar)

Straumönd (Histrionicus histrionicus)

Verndarstaða: Ekki í hættu

Straumönd heldur til í straumhörðum lindám og við brimasamar strendur. Hún er 38-45 cm að lengd og vegur 600 gr. Hún verpur á árbökkum eða í hólmum. Hreiðrin eru vel falin á milli steina eða í gróðri.  Straumend verpur 4-8 eggjum og liggur á í 27-29 daga og er ungatíminn allt að 70 dagar. Sendlingur er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.    

Upplýsingar um straumönd á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um straumönd á fuglavefnum

Rauðbrystingur (Calidris canutus)

Verndarstaða: Ekki í hættu

Rauðbrystingur er meðalstór vaðfugl. Hann er 23-25 cm að lengd og vegur 150 gr. Hann verpur ekki á Íslandi heldur kemur hér við á leið sinni til varpstöðvanna á Grænlandi og íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Rauðbrystingur er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.    

Upplýsingar um rauðbrysting á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um rauðbrysting á fuglavefnum

Sendlingur (Calidris maritima)

Verndarstaða: Í hættu

Sendlingur er dekkstur og einn af minnstu litlu vaðfuglanna. Hann er 20-22 cm að lengd og vegur 80 gr. Hann verpur aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Sendlingur verpur 4 eggjum og liggur á í 21-22 daga og er ungatíminn 21 dagur. Sendlingur er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.    

Upplýsingar um sendling á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um sendling á fuglavefnu

Tildra (Arenaria interpres)

Verndarstaða: Ekki í hættu

Tildra er fremur lítill fjörufugl. Hann er 22-24 cm að lengd og vegur 120 gr. Tildra verpur ekki á Íslandi heldur er far- og vetrargestur og kemur við á Íslandi á leið til varpstöðva sinna á Grænlandi og Norðaustur-Kanada og vetrarstöðva sinna í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Tildra er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. 

Upplýsingar um tildru á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um tildru á fuglavefnum