Langárós að Hjörsey

Lundi / Mynd: Canva

Kynningarfundur

Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur á svæðinu fór fram þann 19. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.

Horfa á upptöku frá fundinum

Skoða glærur frá fundinum

Um svæðið

Sveitarfélag: Borgarbyggð

Möguleg stærð: 290 km2

Svæðið liggur innan tillögusvæðisins Mýrar-Löngufjörur og liggur að stórum hluta út í sjó og yfir láglend og lífrík votlendissvæði, sjávarlón og fjörur. Á grunnsævi er mikill fjöldi eyja, hólma og skerja og við vogskorna ströndina er fjörubeðurinn ýmist víðáttumiklar leirur, sandfjörur eða sjávarfitjar.  Einnig eru selalátur landsels og útsels innan svæðisis sem og lífríkar sjávarfitjar og leirur.

Innan svæðisins liggur m.a. Langárós sem er einn lengsti og frjósamasti árós landsins eða um 10 km að lengd.

Ekki er gert ráð fyrir að heimalönd jarða og athafnasvæði liggi innan afmörkunar vegna vegna verndurnar svæðisins.

Svæðið er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði, Borgarfjörður – Mýrar – Löngufjörur en mikið varp vatnafugla er á svæðinu og það er mikilvægur viðkomustaður margra fuglategunda.

Votlendissvæðin (>20.000m2), vötn og tjarnir (>1.000m2), sjávarfitjar og leirur á svæðinu falla undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd.

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Mýrar – Löngufjörur

Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun

 

 

 

Mögulegar verndarráðstafanir

 1.  Vegna ríkulegs fuglalífs og líffræðilegs fjölbreytileika svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem friðlands skv. 49. gr. náttúruverndarlaga.

Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.

Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.

Sambærilegt friðlýst svæði eru friðlöndin Blikastaðakró – Leiruvogur og Varmárósar í Mosfellsbæ.

2.  Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna og fuglanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.

Friðun vistgerða felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021 en ekki er til sambærileg friðun fyrir tegundir.

Mögulegar takmarkanir/innviðir

Ekki er talin þörf á að takmarka þá landnotkun og hlunnindanýtingu sem er nú á svæðinu vegna verndar. Heimalönd og lóðir geta fallið utan friðlýsingar. Á varptíma gæti þurft að takmarka notkun dróna. Einnig gæti þurft að takamarka notkun tiltekinna vatnaleiktækja á varptíma.

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Runnamýravistar á láglendi
  • Sjávarfitjungsvistar
  • Starungsmýravistar
  • Flatlendisvatna
  • Árósa
  • Marhálmsgræða
  • Sandmaðskleira
  • Skeraleira
  • Toppskarfs
  • Æðs
  • Kríu
  • Lunda
  • Himbrima
  • Blesgæsar
  • Tjalds

Runnamýravist á láglendi

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Lítið til nokkuð hallandi, deigt til blautt, þýft mýrlendi á sléttlendi, bungum og í hlíðum, vaxið smárunnum, störum og fleiri votlendistegundum, mikill barnamosi í þúfum og á rimum. Vatn stendur hátt en land fer lítið eða ekki undir vatn í leysingum og flóðum. Land er algróið, miðlungsfrjósamt og gróður allhávaxinn. Æðplöntur eru ríkjandi en mosi er mjög mikill í sverði, fléttur finnast vart.

Vistgerðin er í meðallagi rík af tegundum æðplantna, fremur rík af mosum en fléttutegundir eru mjög fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna eru bláberjalyng, fjalldrapi, mýrastör og vetrarkvíðastör. Algengustu mosar eru móasigð, engjaskraut, lémosi og tildu­rmosi en af fléttum er himnuskóf algengust.

Ríkulegt fuglalíf er í vistgerðinni. Algengustu varpfuglar eru spói, lóuþræll, þúfutittlingur og hrossagaukur, stelkur, kjói, heiðlóa og grágæs.

Upplýsingar um runnamýravist á láglendi á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Sjávarfitjungsvist

Verndarstaða: Ákjósanleg – góð

Verndargildi vistgerðar: Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Allvel gróin, votlendissvæði við sjávarstrendur við efri mörk fjöru en við stórstraumsmörk eða neðar. Fitjarnar eru hallalitlar, oft með lænum, pollum og smátjörnum. Sjór flæðir yfir fitjarnar í stórstraumi og flóðum. Vistgerðin er því undir miklum áhrifum af sjó.

Gróður er víða beltaskiptur þar sem neðst ríkja sjávarfitjungur og kattartunga en ofar taka við túnvingull og skriðlíngresi. Gróður er fremur lágvaxinn og oft mikið bitinn af gæsum, álftum og sauðfé. Hann einkennist af æðplöntum en mosar og fléttur finnast í mjög litlum mæli. Æðplöntuflóra er mjög fábreytt og einkennist af saltþolnum tegundum sem flestar eru bundnar við búsvæðið. Lágplöntutegundir mjög fáar.

Jarðvegurinn er miðlungi þykkur, aðallega lífræn jörð og leiru-jörð einnig finnst sandjörð og áfoksjörð.

Í vistgerðinni er ekki varpland vegna sjávarfalla en mikilvægt fæðuöflunarsvæði einkum fyrir andfugla, þ. á m. margæs og vaðfugla.

Upplýsingar um sjávarfitjungsvist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Starungsmýravist

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndagildi vistgerðarinnar er mjög hátt og er hún á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Lítið til nokkuð halla

ndi, deigt til blautt, þýft mýrlendi vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, á sléttlendi og í hlíðum. Á þúfum og rimum vaxa smárunnar og fleiri þurrlendistegundir. Jarðvatn stendur hátt en land fer lítið eða ekki undir vatn í leysingum og flóðum, vatn er fremur steinefnaríkt og land frjósamt. Það er algróið, gróður allhávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi en mosi mikill, fléttur finnast vart. Í þennan flokk falla elftingamýrar en í þeim getur mýrelfting verið með allt eins mikla þekju eða meiri en mýrastör.

Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna, fremur rík af mosum en fléttutegundir frekar fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna eru mýrastör, bláberjalyng, fjalldrapi og engjarós. Algengustu mosar eru tildurmosi, móasigð, engjaskraut, lémosi og geirmosi en af fléttum finnast helst himnuskóf og hreindýrakrókar.

Ríkulegt fuglalíf er í vistgerðinni algengustu varpfuglar eru lóuþræll, spói, þúfutittlingur, hrossagaukur, jaðrakan og stelkur.

Upplýsingar um starungsmýravist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands 

Flatlendisvötn

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðina er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Fremur lítil vötn á grónu flatlendi. Vatnasvið er yfirleitt vel gróið. Vatnsbakkar eru vel grónir og grýtt strandlengja er sjaldan til staðar. Vötnin eru mjög grunn (<2 m) og vatnsskálin nokkuð jafndjúp. Loftgróður (plöntur sem vaxa upp úr vatninu), er áberandi við bakka. Þekja vatnagróðurs er oftast mikil í vötnunum og margar tegundir koma fyrir.

Einkennistegundir eru síkjamari, þráðnykra, grasnykra, gulstör og tjarnastör. Loftgróður, t.d. vatnsnál, lófótur, fergin og horblaðka, kemur frekar fyrir í þessari vistgerð en öðrum. Sverðnykra og tjarnablaðka fundust aðeins í þessari vistgerð. Kransþörungar koma fyrir.

Fuglaríkustu vötn landsins. Endur eru einkennandi, t.d. skúfönd og duggönd og sums staðar flórgoðar.

Vötnin finnast víða um land, yfirleitt á láglendi, í að meðaltali um 120 m h.y.s. Nær einnig til grunnra vatna á grónum votlendissvæðum á hálendi.

Upplýsingar um flatlendisvötn á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Árósar

Verndarstaða: Ákjósanleg – góð

Verndargildi vistgerðar: Lágt. Vistgerðina er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Neðri hluti árfarvegs þar sem árvatn og saltur sjór mætast, en straumur er fremur mikill og sjávarfalla gætir. Seltan er breytileg eftir sjávarföllum og getur hún sveiflast frá fersku vatni í fullsaltan sjó. Þar sem ferskvatn og saltur sjór mætast í straumlitlum ósum, safnast fyrir set sem getur myndað víðáttumikla sand- eða leirufláka sem koma upp á fjöru. Slík svæði eru frábrugðin leirulónum að því leyti að ferskvatn er ráðandi.

Sjávarföll hafa mikil áhrif á seltu árósa og þar með lífríkið. Hluti af lífríki árósa eru sjávartegundir en fjær sjónum, þar sem seltan er minnst, ber helst á lífverum ættuðum úr fersku vatni. Árósar geta verið frekar langir og einna lengstur er Langárós á Mýrum, um 10 km. Fjörubeður árósa er möl, sandur og leir. Mikið fuglalíf er í árósum, einkum vaðfugla í ætisleit þar sem eru leirur og sjávaráhrifa gætir.

Upplýsingar um árósa á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Marhálmsgræður

Verndarstaða: Óþekkt

Verndargildi vistgerðar: Miðlungs. Vistgerðina er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Fínkornóttar leirur með breiðum af marhálmi sem er graskennd æðplanta og einkennistegund vistgerðarinnar. Súrefnislaust, dökkt eða svart lag tekur oft við um 5 cm undir yfirborði setsins. Seltan er breytileg en marhálmur þolir mjög breitt seltubil (Tutin 1938) og er ein af fáum æðplöntum hér á landi sem vex í fjörum þar sem fullsaltur sjór fellur yfir. Vistgerðin er mjög tegundarík því vegna marhálmsins safnast lífríkur massi í leiruna sem dregur að sér ýmsar tegundir lífvera (Boström og Bonsdorff 1997). Hér á landi eru þó nánast engar ásætur á marhálminum eins og algengt er annars staðar. Marhálmsgræður voru mun algengari hér áður fyrr, en upp úr 1930 kom upp sýking sem eyddi marhálmi að mestu úr fjörum í N-Atlantshafi. Hann er að ná sér á strik aftur hér á landi þótt hann sé ekki orðinn jafn algengur og áður. Vistgerðin er helst þar sem set nær aldrei að þorna alveg, oft við árósa eða í sjávarlónum.

Fjörubeður marhálmsgræða er fínn sandur og leir. Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir margæs, álft og rauðhöfðaönd. Mest af honum er þó tekið meðan hann er á kafi og þá aðallega neðan fjörumarka.

Upplýsingar um marhálmsgræðu á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Sandmaðksleirur

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Hátt

Fremur eða mjög fínkornóttar leirur þar sem sandmaðkur er einkennistegund. Víða eru strýtulaga úrgangshraukar maðksins mjög áberandi á yfirborði leirunnar. Sandmaðksleirur eru yfirleitt breiðar, víðáttumiklar og fremur flatar en eru einnig til sem minni skikar umluktir af öðrum fjöruvistgerðum. Hins vegar eru smærri og misjafnlega sundurslitnir skikar af sandmaðksleirum, innan um óreglulega þangfláka, taldir vera hluti af vistgerðinni þangklungri.

Sandmaðksleirur eru auðugar af dýrategundum sem flestar grafa sig niður í setið. Burstaormurinn lónaþreifill er oft áberandi, en hann býr í örsmáum pípum sem standa upp úr leirunni og þekja yfirborðið. Lítið er af stærri brúnþörungum en smávaxið þang getur vaxið á stærri steinum á leirunni. Einnig eru þar stöku kræklingsknippi og fylgja þeim ýmsar tegundir sem ekki eru annars staðar á leirunni. Neðst á sumum sandmaðksleirum eru vel grónir smáskikar af marhálmi en séu þeir nægilega stórir eru þeir flokkaðir til sérstakrar vistgerðar þ.e. marhálmsgræða. Fjörubeðurinn er fínn sandur og leir. Vistgerðin er mjög mikilvægt fæðusvæði tjalds og sandlóu.

Upplýsingar um sandmaðksleirur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands  

Skeraleirur

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt

Gróðurvana leirur með fremur fínkornóttu seti og seltulitlum sjó. Einkennistegund er leiruskeri sem grefur sig niður í setið og er oft í miklu magni. Sandmaðkur getur einnig verið algengur (Agnar Ingólfsson 2006) en að öðru leyti er dýralíf fremur fábreytt. Skeraleirur eru oft við óseyrar og ofan við sandmaðksleirur. Fjörubeðurinn er fínn sandur og leir. Vistgerðin er mikilvægt fæðusvæði hettumáfs og vaðfugla, einkum jaðrakans, stelks, lóuþræls, sandlóu og tjalds.

Upplýsingar um skeraleirur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis)

Verndarstaða: Í nokkurri hættu

Toppskarfur er staðfugl sem heldur helst til vestanlands frá Krýsuvíkurbergi og vestur um í Húnaflóa, þó langmest í Breiðafirði. Hann er 65-80 cm að lengd og vegur um 2 kg. Hann verpur 1-6 eggjum og liggur á í 30-31 dag. Ungatíminn er 53 dagar. Toppskarfur heldur sig með ströndum fram og verpur í lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa en er einnig í klettum og fuglabjörgum.

Upplýsingar um toppskarf á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um toppskarf á fuglavefnum

Æður (Somateria mollissima)

Verndarstaða: Í yfirvofandi hættu

Æðarfugl er stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á og við sjó og er algengasta önd Íslands og er 50-71 cm að lengd og um 2 kg. Æðarfugl verpur við ár og vötn í oft stórum og þéttum byggðum í hólmum eða þar sem hann nýtur verndar. Kollan verpur 3-6 eggjum og liggur á í allt að 28 daga og er ungatíminn allt að 75 dagar. Æður er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.    

Upplýsingar um æðarfugl á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um æðarfugl á fuglavefnum

Blesgæs (Anser albifrons flavirostris)

Vernarstaða: Tegund í hættu

Blesgæs er fagestur á Íslandi með viðkomu á vorin og haustin. Helstu viðkomustaðir blesgæsar eru á vestur og suðvesturlandi. Hún verpur víða á norðlægum slóðum og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Blesgæs er 65-78 cm að lengd og um 2,5 kg. Hún verpur 5-6 eggjum sem hún liggur á í 27-28 daga og ungatíminn er 40-43 dagar. Hún er grasbítur sem sækir helst í ræktarland og votlendisgróður. Blesgæs er á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem þarfnast sérstakrar búsvæðaverndar.

Upplýsingar um blesgæs á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um blesgæs á fuglavefnum

Kría (Sterna paradisaea)

Verndarstaða: Í nokkurri hættu

Kría er farfugl í flokki þerna og er um 33-35 cm að lengd og um 120 gr. að þyngd. Hún verpur í bæði grónu og gróðursnauðu landi. Hún verpur 1-3 eggjum, liggur á í 20-24 daga og ungatíminn er 21-24 dagar. Varpsvæði kríu er í kringum norður heimskautið en vetrarstöðvar hennar eru í suður Atlantshafi og suður að Suður Ísahafi og allt austur til Ástralíu. Kríuvarp hefur að mestu brugðist vegna sandsílaskorts sunnanlands frá árinu 2005 en Melrakkaslétta er eitt þeirra svæða

Kría er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. Kría er einnig á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem þarfnast sérstakrar búsvæðaverndar.

Upplýsingar um kríu á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um kríu á fuglavefnum

Lundi (Fratercula arctica)

Verndarstaða: Í bráðri hættu

Lundi er einn af minni svartfuglunum sem er um 26-29 cm að lengd og um 0,5 kg. Hann verpur í byggðum í grösugum eyjum, höfðum og ofan við bjargbrúnir eða í urðum undir þeim. Lundi grefur holu í svörð eða verpur undir steinum og í glufum. Verpur lundi einu eggi og liggur á í allt að 42 daga og er ungatíminn allt að 56 dagar. Lundinn er algengasti fuglinn á Íslandi en sílaleysisárin frá því um 2005 hafa valdið verulegri fækkun í stofninum. Tegundin er í bráðri hættu skv. válista. Lundi er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.

Upplýsingar um lunda á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um lunda á fuglavefnum

Himbrimi (Gavia immer)

Verndarstaða: Í nokkurri hættu

Himbrimi er stór vatnafugl sem verpur við vötn og tjarnir með silungi í allt að 600m hæð yfir sjávarmáli. Himbrimi er 69-91 cm að lengt og 3,5kg að þygd og verpur tveimur eggjum. Hann liggur á í 25-30 daga og ungatíminn er 56-77 dagar. Himbrimi er að nokkru farfugl en Ísland er eini varpstaður í Evrópu en er algengur á meginlandi norður Ameríku og á Grænlandi. Himbrimi er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum. Hann er einnig á lista Bernarsamningsins yfir tegundir sem þarfnast sérstakrar búsvæðaverndar.

Upplýsingar um himbrima á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um himbrima á fuglavefnum

Tjaldur (Haematopus ostralegus)

Verndarstaða: Í nokkurri hættu

Tjaldur er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er 40-45 cm að lengd og vegur um 600 gr. Hann verpur 2-4 eggjum og liggur á í 24-27 daga. Ungatíminn er 28-32 dagar. Tjaldur er að mestu farfugl sem hefur helst til vetursetu í Bretlandseyjum. Nokkur þúsum fuglar dvelja á Íslandi á vetrum, þá að mestu við Breiðafjörð, Faxaflóa og Hornafjörð.

Upplýsingar um tjald á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um tjald á fuglavefnum