Drangey

Mynd: Bromr - Wikimedia

Um svæðið

Sveitarfélag: Sveitarfélagið Skagafjörður

Möguleg stærð verndarsvæðis: 6.6 km

Drangey er þverhnípt móbergseyja sem liggur fyrir miðjum Skagafirði. Hæst er eyjan tæpir 180 m y.s. með grasi vaxinn topp og fjölbreytt fuglalíf. Eyjan telst alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð og er þar mikilvægur varpstaður langvíu (7.099 pör), álku (2.116 pör) og lunda (33.900 pör). Meðal annarra varpfugla í eynni má nefna ritu og stuttnefju. Eyjan er nýtt til eggja- og fuglatekju ásamt því sem þar er stunduð ferðamennska.

Við Drangey er selalátur og frá henni er víðsýnt um Skagafjörð.

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Drangey

Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun

Mögulegar verndarráðstafanir

1.  Vegna ríkulegs fuglalífs og líffræðilegs fjölbreytileika svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem friðlands skv. 49. gr. náttúruverndarlaga.

Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.

Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.

Sambærilegt friðlýst svæði er Látrabjarg.

2. Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun fuglategundanna á svæðinu skv. 56. gr. náttúruverndarlaga. 

Friðun tegunda felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu búsvæðanna, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021 en ekki er til sambærileg friðun fyrir fugla.

Mögulegar takmarkanir

Tryggja þarf sjálfbæra nýtingu hlunninda s.s. vegna eggjatöku og fuglaveiða. Mögulega gæti þurft að takmarka notkun dróna á svæðinu á varptíma og aðra umferð s.s. vegna vélknúinna vatnatleikækja við björgin.

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Langvíu (varp)
  • Álku (varp)
  • Lunda (varp)

Langvía (Uria aalge)

Verndarstaða: Í nokkurri hættu

Langvía er fremur stór svartfugl sem er um 28-41cm að lengd og um 1000gr. Hún verpur á berar syllur í stórum byggðum í fuglabjörgum, ofan á stöpum og í klettaeyjum.  Verpur hún einu eggi og liggur á í um 33 daga og er ungatíminn allt að 70 dagar. Talningar á langvíum hafa sýnt langvarandi fækkun í stofninum og er hún flokkuð sem tegund í nokkurri hættu skv. válista. Langvía er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.

Upplýsingar um langvíu á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um langvíu á fuglavefnum

Lundi (Fratercula arctica)

Verndarstaða: Í bráðri hættu

Lundi er einn af minni svartfuglunum sem er um 26-29 cm að lengd og um 0,5 kg. Hann verpur í byggðum í grösugum eyjum, höfðum og ofan við bjargbrúnir eða í urðum undir þeim. Lundi grefur holu í svörð eða verpur undir steinum og í glufum. Verpur lundi einu eggi og liggur á í allt að 42 daga og er ungatíminn allt að 56 dagar. Lundinn er algengasti fuglinn á Íslandi en sílaleysisárin frá því um 2005 hafa valdið verulegri fækkun í stofninum. Tegundin er í bráðri hættu skv. válista. Lundi er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.

Upplýsingar um lunda á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um lunda á fuglavefnum

Álka (Alca torda)

Verndarstaða: Í yfirvofandi hættu

Álkan er miðlungsstór svartfugl sem er um 37-39 cm að lengd og um 600 gr. að þyngd. Hún verpur í byggðum við sjó, björgum eð í grýttum urðum, í sprungum eða undir steinum en líka á berar syllur. Álka verpur einu eggi og liggur í 35 daga en ungatíminn er 49-70 dagar. Álka er ábyrgðartegund á Íslandi en miðað er við að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.    

Upplýsingar um álku á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Upplýsingar um álku á fuglavefnum