Losun þungmálma

Photo by John Salvino on Unsplash

Losun þungmálma 

Uppsprettur þungmálma sem losna út í andrúmsloftið eru meðal annars í vegasamgöngum, fiskiskipum, eldsvoðum og flugeldanotkun. Bókhald Umhverfisstofnunar heldur utan um eftirfarandi þungmálma:

  • Blý – Pb
  • Kadmín – Cd
  • Kvikasilfur – Hg
  • Arsen – As
  • Króm – Cr
  • Kopar – Cu
  • Nikkel – Ni
  • Selen – Se
  • Sink – Zn

Blý, kadmín og kvikasilfur (Pb, Cd og Hg)  

Losun á blýi, kadmíni og kvikasilfri á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

  • VegasamgöngurLosun blýs og kvikasilfurs frá vegasamgöngum hefur aukist vegna aukinnar eldsneytisnotkunar.
  • ÁlframleiðslaÁlframleiðsla er helsta uppspretta kadmínlosunar og veldur einnig losun blýs. Losunin jókst talsvert árin 2006-2008 vegna aukinnar framleiðslu og hefur haldist nokkuð stöðug síðan þá.
  • EldsvoðarEldsvoðar leiða til blýlosunar.
  • Innanlandsflug (lofttak og lending): Blýlosun verður vegna innanlandsflugs. Þessi losun hefur dregist mikið saman frá 1990 vegna minni notkunar flugvélabensíns.
  • FlugeldarEin af uppsprettum blýlosunar er flugeldanotkun. Aukningin síðan 1990 endurspeglar aukna flugeldanotkun sem er að mestu um áramót. Sjá má að losunin nær hámarki árið 2007, stuttu fyrir fjármálahrunið.
  • HitaveiturHitaveitur sem nýttu sorpbrennslu sem orkugjafa voru starfræktar milli 1993 og 2013 sem leiddi til töluverðrar losunar á blýi, kadmíni og kvikasilfri.
  • FiskiskipLosun frá fiskiskipum er stór  liður losunar á kadmíni og kvikasilfri og veldur einnig losun á blýi. Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingum á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni.
  • Opinn bruni á úrgangiHelsta uppspretta kvikasilfurslosunar á 10. áratug síðustu aldar var opinn bruni á úrgangi. Einnig stuðlaði hann að töluverðri kadmínlosun. Opinn bruni viðgekkst aðallega árin 1990 til 2004.
  • Bruni á sóttnæmum sjúkrahúsúrgangiBruni úrgangs er helsta uppspretta kvikasilfurslosunar á Íslandi undanfarin ár.
  • Líkbrennsla: Líkbrennsla er stækkandi þáttur kvikasilfurslosunar á Íslandi.
 

 

 

Arsen, króm, kopar, nikkel, selen, sink (As, Cr, Cu, Ni, Se, Zn)  

Losun á arseni, krómi, kopar, nikkeli, selen og sinki á Íslandi er fyrst og fremst frá eftirfarandi uppsprettum:

  • Fiskiskip: Losun frá fiskiskipum er stærsti liður losunar áselen og næst stærsti liður losunar á arseni og nikkeli. Samdráttur í losun er að mestu vegna minni eldsneytisnotkunar fiskiflotans. Losun jókst þó á tímabilinu 1990-1996 þar sem hluti flotans sigldi óvenjulangt til veiða. Frá árinu 1996 hefur losun farið minnkandi með sveiflum sem endurspeglast í breytingum á aflamagni, fiskistofnum og öðrum náttúrulegum þáttum ásamt endurnýjun skipa og bættri orkunýtni. Losun arsens og nikkels dróst verulega saman er bann við notkun svartolíu á fiskiskip tók gildi árið 2020.
  • Vegasamgöngur: Vegasamgöngur er stærsti liður losunar á krómi og kopar og næst stærsti liður losunar á selen og sinki. Losunin verður að mestu við slit á dekkjum og bremsum og hefur aukist vegna aukningu í fjölda ekinna kílómetra.
  • Álframleiðsla: Álframleiðsla er stærsta uppspretta losunar á arseni, nikkeli og sinki í dag og næst stærsta uppspretta krómlosunar. Losunin jókst talsvert árin 2006-2008 vegna aukinnar framleiðslu og hefur haldist nokkuð stöðug síðan þá.
  • Hitaveitur: Hitaveitur sem byggja á sorpbrennslu voru starfræktar milli 1993 og 2013 sem leiddi til losunar á arseni.
  • Opinn bruni á úrgangi: Ein helsta uppspretta losunar á arseni og sinki árið 1990 var opinn bruni á úrgangiOpinn bruni viðgekkst aðallega árin 1990 til 2004.
  • Flugeldar: Ein af uppsprettum losunar á krómi, kopar, nikkeli og sinki er flugeldanotkun. Aukningin frá 1990 endurspeglast í aukinni flugeldanotkun.. Sjá má að losunin nær hámarki árið 2007, stuttu fyrir fjármálahrunið.
  • Innanlandssiglingar: Siglingar leiða til losunar á krómi, nikkeli og selen vegna eldsneytisbruna.
  • Steinefnaiðnaður: Losun á krómi og selenátti sér stað vegna sementsframleiðslu við bruna á kolum þar til framleiðslu var hætt árið 2012.
  • Vélar og tæki (annað): Eldsneytisnotkun véla og tækja leiðir til blýlosunar.*
  • Rafmagn og hitaveitur: Eldsneytisbruni til raforkuframleiðslu leiðir til losunar á selen.
  • Eldsvoðar: Eldsvoðar leiða til sinklosunar.

*Hafa ber í huga að ekki er hægt að bera saman losunina árið 2019 og 2020 við önnur ár í tímalínunni í þessum undirgeira vegna lagfæringa í losunarbókhaldinu sem ekki er lokið.