Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda 2023

Hér má finna umfjöllun um nýjar bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2023. 

Ítarlegri gögn og gröf má hlaða niður hér.

Samfélagslosun Íslands

Samfélagslosun Íslands (ESR) árið 2023 nam 2,69 milljónum tonna CO2-ígilda (CO2-íg.). Það er um 2,8% samdráttur frá árinu 2022 þegar losunin var 2,76 milljón tonn CO2-íg.

Þessa breytingu má helst rekja til minni eldsneytisnotkunar í fiskimjölsverksmiðjum, minni notkunar á tilbúnum áburði, fækkun sauðfjár, minni urðun úrgangs og minni losunar vegna kælimiðla. Losun jókst þó á sama tíma í nokkrum undirflokkum sem falla undir samfélagslosun m.a. vegna meiri notkunar á vélum og tækjum í byggingariðnaði, meiri eldsneytisnotkunar fiskiskipa og vegna meiri eldsneytisnotkunar fjarvarmaveitna. Losun frá vegasamgöngum dróst lítillega saman milli 2022 og 2023.

Hér að neðan má sjá hvaða undirflokkar sem falla undir samfélagslosun breyttust mest milli áranna 2022 og 2023 (mynd 1) og hvernig hlutföll undirflokkana skiptast árið 2023 (mynd 2).

 Mynd 1: Helstu breytingar í samfélagslosun Íslands milli áranna 2022 og 2023. 


 

Mynd 2: Skipting samfélagslosunar árið 2023 í undirflokka

Hlutdeild Íslands, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum, í sameiginlegu markmiði ESB, Íslands og Noregs um samdrátt verður líklega að draga úr samfélagslosun um 41% árið 2030 miðað við árið 2005. Samdráttur frá árinu 2005 er 14% árið 2023. Samfélagslosun Íslands frá árinu 2005 má sjá á mynd 3 í samhengi við væntanlegar skuldbindingar um 41% samdrátt árið 2030 og 55% markmið úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2030. Nánar má lesa um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum hér.

 

Mynd 3: Samfélagslosun Íslands 2005 til 2023 ásamt væntanlegum skuldbindingum um 41% samdrátt árið 2030 miðað við 2005 og markmiði úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um 55% samdrátt fyrir árið 2030.

 

Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) er frá staðbundnum iðnaði á Íslandi og flugi frá flugrekendum í umsjón Íslands.

Losun frá staðbundnum iðnaði var 1,81 milljónum tonn CO2-íg. árið 2023. Það er um 3,3% samdráttur frá árinu 2022 þegar losunin var 1,88 milljón tonn CO2-íg. Þessa breytingu má helst rekja til samdráttar í kísil- og kísilmálmframleiðslu. Losun vegna álframleiðslu jókst þó á sama tíma.

Losun frá flugi sem fellur undir ETS-kerfið var 0,60 milljón tonn CO2-íg. árið 2023. Það er um 11% aukning frá árinu 2022 þegar losunin var 0,54 milljón tonn CO2-íg.

 Mynd 4: Helstu breytingar í losun á Íslandi sem fellur ETS-kerfið milli áranna 2022 og 2023. 


Landnotkun

Gert er ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun (LULUCF) hafi staðið nánast í stað milli áranna 2022 og 2023. Losunin árið 2022 var 7.757 þús. tonn CO2-íg. en áætluð losun ársins 2023 var 7.743 þús. tonn CO2-íg.

Sem fyrr þá á binding sér stað innan skógræktar. Þar reiknast binding ársins 2023 um 508 þús. tonn CO2-íg. sem er nokkur aukning frá árinu 2022 þegar binding í skógum og skógrækt reyndist um 505 þús. tonn CO2-íg. Hins vegar er áætlaður helmingssamdráttur í bindingu skógarafurða.

Mesta losun innan landnotkunar var sem áður í mólendi, eða um 77% af losun frá landnotkun. Árið 2022 var losunin um 5.971 þús. tonn CO2-íg. Skv. fyrirliggjandi bráðabirgðaútreikningum er gert ráð fyrir að losun ársins 2023 hafi verið um 5.974 þús. tonn CO2-íg.


Heildarlosun Íslands

Heildarlosun Íslands árið 2023 nam 12,3 milljónum tonna CO2-íg. Það er um 1,3% samdráttur frá árinu 2022 þegar losunin var 12,4 milljón tonn CO2-íg. Ef miðað er við losun árið 2005 hefur heildarlosun Íslands aukist um 4,3% fram til ársins 2023. Heildarlosun Íslands 2005 til 2023, skipt eftir skuldbindingum, má sjá á mynd 5.

 

 Mynd 5: Heildarlosun Íslands 2005 til 2023, skipt eftir skuldbindingum.

 

Bráðabirgðatölur og umbætur

Bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem skilað er til ESB í júlí ár hvert hafa sögulega gefið góða vísbendingu um hvernig losunin er að þróast. Tölurnar gætu tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum í apríl 2025. Til dæmis var munurinn milli bráðabirgða- og lokatalna um heildarlosun Íslands án landnotkunar árið 2022 einungis 0,8%. Síðustu lokaskil voru í apríl 2024 og má finna ítarlega samantekt á þeim gögnum í vefsamantekt um losun gróðurhúsalofttegunda.

Sífellt er unnið að endurbótum á losunarbókhald Íslands til að auka gæði og áreiðanleika gagnanna og einnig er bókhaldið rýnt reglulega af sérfræðingum UNFCCC. Þetta gerir það að verkum að reglulega eru gerðar breytingar á losunartölum.

Umhverfisstofnun mun birta nýjustu gögn hér þegar þeim er næst skilað til ESB, með fyrirvara um að tölum sem skilað er fyrir lokaskil í apríl 2025 eru ekki lokatölur og geta tekið breytingum. Á öðrum flipum á þessari síðu eru notaðar tölur í samræmi við síðustu opinberu lokaskil.