Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Ekki gleyma mér

Að fara í sund er góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna og því fylgir bæði tilhlökkun og vellíðan. Á sama tíma bera þeir sem fara með börn í sund ábyrgð á að tryggja öryggi barna í sundi.

Árið 2020 var árvekniátaki hrundið af stað til að vekja athygli á öryggi barna í sundi og var markmiðið með því að minna foreldra, forráðamenn og aðra á ábyrgð þeirra þegar þeir fara með börn yngri en 10 ára í sund og að þeir fylgist með börnunum og séu með þeim í og við laugarnar öllum stundum. Vakin var athygli á þeim reglum sem gilda um aldur barna í sundi en þær eru skilgreindar eru í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum og í handbók um sund og baðstaði (sjá frétt). 

Umhverfisstofnun lét útbúa veggspjöld fyrir sundstaði um ábyrgð foreldra, forráðamanna og annarra sem fara með börn í sund um að passa upp á þau í sundi. Þessi veggspjöld má finna hér að neðan.

Umhverfisstofnun vekur athygli á að mikill árangur hefur náðst í öryggismálum á sundstöðum og slysum á börnum í sundlaugum hefur fækkað verulega undanfarin 20 ár. Þessum árangri er að mestu leyti rekstraraðilum sundstaða og starfsfólki að þakka. Auk þess sinna heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eftirliti með öryggisþáttum sundlauga. Umhverfisstofnun hvetur þá sem fara með börn í sund og alla aðra til að leggja sitt að mörkum til að halda áfram á þessari leið og auka öryggi barna í sundi.

Árvekniveggspjald 1 - á íslensku og ensku

Árverkniveggspjald 2 - á íslensku og ensku