Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Spurt og svarað um reglugerð um hollustuhætti

Hvernig á að framfylgja nýjum kröfum sem gerðar eru í reglugerð nr. 903/2024? 

Líkt og fram kemur í 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 903/2024 öðlaðist reglugerðin gildi við birtingu hennar, eða þann 27. júlí 2024. Frá sama tíma féll brott reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í reglugerðinni er þó ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 34. gr. þurfa þeir sem starfa við húðrof ekki að framvísa skírteini þess efnis að hafa staðist hæfnispróf fyrr en eitt ár frá gildistöku reglugerðar þessarar, eftir því sem við á. 

Varðandi þau fyrirtæki sem fengu starfsleyfi fyrir gildistöku reglugerðar nr. 903/2024, þá  gildir hin nýja reglugerð einnig fyrir þá starfsemi.   

Varðandi nýjar kröfur sem kunna að vera gerðar í reglugerð nr. 903/2024, kann að vera rétt að veita hæfilegan frest til úrbóta áður en til frekari eftirfylgni með beitingu þvingunarúrræða kemur, sbr. 50. gr. reglugerðarinnar og 60. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lengd þess frests yrði háður mati hverju sinni. 

Af hverju á að auglýsa starfsleyfi á sviði hollustuhátta opinberlega eftir gildistöku reglugerðarinnar?  

Ákvæði um fjögurra vikna auglýsingu á starfsleyfistillögum og að útgefandi skuli eftir það taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis hafa verið í gildi fyrir hollustuháttastarfsemi síðan 14. júlí 2017 þegar lög nr. 66/2017 um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir tóku gildi. 

Varðandi tímafresti, þá eru 4. og 5. mgr. 9. gr. nýju reglugerðarinnar samhljóða ákvæðum 3. og 4. mgr. 7. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þeir tímafrestir sem um er getið eru því ekki nýmæli við lögbundna framkvæmd útgáfu starfsleyfa á sviði hollustuhátta. 

Hvernig eru reglur um fjölda og gerð snyrtinga í nýrri reglugerð?  

Í reglugerð nr. 903/2024 um hollustuhætti eru ekki gerðar kröfur um fjölgun snyrtinga á opinberum stöðum frá því sem var. Samkvæmt reglugerðinni er almenna reglan sú að fylgja ber ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi fjölda snyrtinga, sbr. 1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar. Um fjölda og gerð snyrtinga er kveðið á um í 6.8.4. gr. í byggingarreglugerð og stjórnast lágmarksfjöldi að meginreglu af fjölda gesta.  

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefur út leiðbeiningar um framkvæmd byggingarreglugerðar og það getur haft þýðingu við túlkun á gildandi kröfum hvenær hús var byggt, eða því breytt, m.t.t. gildistöku viðkomandi ákvæða í reglugerðinni. Heilbrigðisnefnd hefur svo heimild, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglugerðar um hollustuhætti, til að gera ítarlegri kröfu ef umfang starfsemi kallar á það, sbr. og 6.8.4. gr. í byggingarreglugerð.  

Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti er gerð krafa um að þar sem snyrtingar kvenna og karla eru aðskildar sé einnig til staðar kynhlutlaus snyrting, sbr. 6. mgr. 19. gr., en ekki er kveðið á um lágmarksfjölda snyrtinga í þessu sambandi. Í reglugerðinni er ekki krafa um merkingar snyrtinga. Kveðið er á um að æskilegt sé að snyrtingar séu aðstöðumerktar, t.d. með myndum af salerni, skiptiaðstöðu og þvagskálum, frekar en kynjamerktar. Reglugerðin hefur þannig hliðsjón af lögum um kynrænt sjálfræði.  

Ef um er að ræða tiltekna starfsemi sem getið er sérstaklega í reglugerð um hollustuhætti gilda sérákvæði reglugerðarinnar um fjölda snyrtinga í hverju tilviki.  Þetta eru starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir, gististaðir, frístundahús sem ætluð eru til útleigu, gistiskýli, tjald- og hjólhýsasvæði, útihátíðir og mótssvæði, starfsemi þar sem fram fer heilbrigðisþjónusta, húðgötun, húðrof eða fegrunarflúr, dvalarheimili og sambýli, fangelsi og fangagæsla. 

Í 5. mgr. 6.8.4. gr. byggingareglugerðar nr. 112/2012 sem tók gildi 9. febrúar 2012 er kveðið á um að hvert salerni skuli vera í læsanlegu, lokuðu rými. Veggir skulu að jafnaði þannig frágengnir að hvorki sé bil við gólf né við frágengið loft rýmisins. Kröfur þessar eiga einnig við um breytingu á þegar byggðu húsnæði. Jafnframt er skv. 1. mgr. 6.8.3. gr. byggingareglugerðar kveðið á um að í byggingum til annarra nota en íbúðar og eru hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar, skulu a.m.k. eitt af hverjum tíu snyrtingum á hverri hæð vera fyrir hreyfihamlaða. Framangreint hefur því verið í gildi frá fyrrihluta árs 2012.  

Við vinnslu nýrrar reglugerðar um hollustuhætti var litið svo á að flestir opinberir staðir gætu uppfyllt þessar kröfur á einfaldan hátt, t.d. einfaldlega með því að fjarlægja kynjamerkingar. Séu enn eldri salerni í húsnæði sem ekki hefur undirgengist breytingar síðan byggingareglugerð tók gildi í byrjun árs 2012 og því ekki í lokuðu rými, þá er alla jafnan til staðar snyrtingar fyrir hreyfihamlaða í lokuðu rými sem gæti verið kynhlutlaus.  

Hvernig eru reglur um flúrun, götun og nálastungur, þegar kemur að börnum, samkvæmt nýju reglugerðinni?  

Leyfi forráðamanns þarf til að heimilt sé að flúra börn, gata húð þeirra eða beita nálastungu. Í 4. mgr. 34. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að óheimilt sé að flúra, gata húð eða beita nálastungum á einstakling undir 18 ára aldri nema með skriflegu samþykki forráðamanns. Framvísa skal skilríkjum ef vafi leikur á um aldur. Einnig voru sett skýrari ákvæði í reglugerðina varðandi námskeið fyrir þá er vinna við húðrof. Umhverfisstofnun vinnur nú að því að setja á fót slík námskeið.  

Hvernig eru reglur um sérklefar í nýjum íþróttamannvirkjum eða eftir meiri háttar breytingu á húsnæði íþróttamannvirkja? 

Í 3. mgr. 38. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í nýjum íþróttamannvirkjum eða eftir meiri háttar breytingu á húsnæði íþróttamannvirkja skal vera til staðar sérklefi eða sérklefar og skal að lágmarki einn sérklefi uppfylla kröfur algildrar hönnunar. Undir meiri háttar breytingar falla m.a. nýbyggingar, viðbyggingar og umfangsmiklar breytingar á búningsaðstöðu eða öðrum sambærilegum rýmum, sem fellur ekki undir venjubundið viðhald húsnæðis.  

Þetta ákvæði kemur nýtt inn í reglugerðina en höfð var hliðsjón af lögum um kynrænt sjálfræði og Aðgerðaráætlun stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks.  

Hvað er skipulögð afþreyingarstarfsemi og af hverju er búið að bæta henni við nýja reglugerð? 

Á grundvelli öryggissjónarmiða er fjallað sérstaklega um skipulagða afþreyingarstarfsemi í 39. gr. reglugerðarinnar. Er hér átt við t.d. siglingar, köfun, hellaskoðun, klifur o.fl.  

Hvaða reglur gilda um leikvelli við fjöleignarhús samkvæmt 27. gr. reglugerðarinnar? 

Í nýrri hollustuháttareglugerð er m.a. fjallað um leikvelli við fjöleignarhús í 27. gr. Í reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, nr. 1025/2022, má finna nánari ákvæði í tengslum við leikvelli. Áður var í gildi reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim. Í reglugerð nr. 1025/2022 kemur m.a. fram að eigendur fjöleignarhúsa bera ábyrgð á rekstri og eftirliti leiksvæða við sín hús. Í 13. gr. þeirrar reglugerðar kemur fram að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi og að heilbrigðisnefndir hafi eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar varðandi leikvallatæki í notkun og öryggi leiksvæða. Tíðni þess eftirlits er háð mati eftirlitsaðila og við slíkt mat skal tekið tillit til umfangs og innra eftirlits þess leiksvæðis sem um ræðir.