Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Upplýsingar um hávaðakortin

Hávaðakort 2017
Vegagerðin og sveitarfélögin Akureyri, Árborg, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík, Reykjanesbær og Seltjarnarnes auk Isavia f.h. Keflavíkurflugvallar hafa kortlagt hávaða við stóra vegi, í þéttbýli og frá flugumferð.

 Við kortlagningu hávaða voru útreikningar m.v. 4 metra hæð yfir landi og hávaði gefinn upp með hávaðavísunum Lden (meðaltalsgildi hávaða yfir einn sólarhring) og Ln (gildi hávaða að nóttu til). Niðurstöður útreikninga eru settar fram á hávaðakortum, þar sem mismunandi litir sýna mismunandi hávaðagildi, mælt í desíbelum (dB). Metin er stærðargráða á svæðum, fjölda íbúa, skóla og heilbrigðisstofnana sem verða fyrir hávaða meiri en Lden 55 dB og Ln 50 dB.
   
 Útreikningar fyrir hávaðakortlagningu árið 2017, sýna að hávaði fer yfir 55 dB Lden við húsveggi um 26.300 íbúða eða hjá allt að 64.000 íbúum. Hávaðakortin eru reiknuð m.v. 4 metra hæð og sýna hávaðadreifingu yfir stór svæði. Þau hafa upplýsingagildi fyrir almenning auk þess að vera til hliðsjónar við gerð skipulagsáætlana fyrir sveitarfélög. Fyrir mat á hávaða við skipulagsáætlanir og fyrir stakar byggingar skv. reglugerð um hávaða nr. 724/2008 eru aftur á móti notuð nákvæmari hávaðakort fyrir afmörkuð svæði þar sem almennt er miðað við 2 m hæð yfir jörðu og eru ekki hluti af hávaðakortlagningu þessari.  

 Ef áhugi er á að kanna hávaða nánar á tilteknum stað, verður að biðja um þær upplýsingar hjá viðkomandi sveitarfélagi.
 Hávaðakort fyrir vegina og þéttbýlissvæðin má sjá hér fyrir neðan. Einnig greinagerðir fyrir hvert sveitarfélag fyrir sig sem fjalla meðal annars um niðurstöður mælinga og útreikninga, fjölda íbúa sem verða fyrir hávaða og yfirlit yfir hljóðvarnir.

 

Fyrsti áfangi – stórir vegir með umferð meira en 6 milljón ökutækja á ári

Vegagerðin og sveitarfélög kortlögðu stóra vegi, eða hluta þeirra, sem hafa allir umferð meira en 6 milljón ökutækja á ári og eru staðsettir innan höfuðborgarsvæðisins. Vegnúmer þeirra eru 1, 40, 41, 49, 413 og 418. Hávaðamælingar og útreikningar hafa farið fram áður á öllum þessum vegum. Sums staðar hafa sveitarfélög gripið til ráðstafana, þar sem hávaði hefur reynst vera yfir settum mörkum, t.d. með uppsetningu hljóðmana og styrkir veittir til glerskipta.

Við kortlagningu hávaða á vegum með umferð meiri en 6 milljón ökutæki á ári var hávaði reiknaður m.v. 4 metra hæð og gefinn upp í Lden (meðaltalsgildi hávaða yfir einn sólarhring) og Ln (gildi hávaða að nóttu til) gildunum. Niðurstöður útreikninga eru settar fram á hávaðakortum, þar sem mismunandi litir standa fyrir mismunandi dB-gildisbil. Miðað er við að hávaði frá vegum, við húsvegg fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðar-, verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum, fari ekki yfir 55-65 dB LAeq24 (meðaltalsgildi hávaða yfir einn sólarhring). 

Útreikningar sýna að hávaði fer yfir 55 dB Lden við húsveggi um 14.000 íbúða á svæðinu eða hjá allt að 24.000 íbúum. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um hvar hávaði kunni að vera yfir mörkum. Það ber þó að líta til þess að hávaðakortin eru reiknuð m.v. 4 metra hæð en reglugerð um hávaða kveður á um að viðmiðunarhæð utan við húsvegg sé 2 metra hæð og viðmiðunarmörk innanhúss eru við lokaða glugga. Þar sem mælingarnar eru í 4 metra hæð kunna þær að vera misvísandi fyrir lágreista byggð. Einnig hefur sums staðar verði gripið til ráðstafana til þess að draga úr hávaða sem ekki er tekið tillit til í þessum útreikningum.


Annar áfangi – stórir vegir með umferð 3 til 6 milljón ökutækja á ári og fyrir þéttbýlissvæði

Í öðrum áfanga skyldi reikna út hávaða fyrir stóra vegi á öllu landinu með umferð 3 til 6 milljón ökutækja á ári. Stórir vegir með umferð 3 til 6 milljón ökutækja á ári eru staðsettir innan höfuðborgarsvæðisins, Reykjanesbæ, Selfoss og Akureyri. Fimm sveitarfélög falla undir skilgreint þéttbýlissvæði sem skyldi kortleggja en þau er Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður. Útreikningar sýna að hávaði fer yfir 55 dB Lden við húsveggi um 20.200 íbúða eða hjá allt að 46.000 íbúum. Útreikningar fyrir þéttbýlissvæði sýna að hávaði fer yfir 55 dB Lden vegna vega með umferð 3 til 6 milljón ökutækja á ári við húsveggi um 20.000 íbúða eða hjá allt að 45.500 íbúa og vegna iðnaðarsvæða við húsveggi allt að 700 íbúða. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um hvar hávaði kunni að vera yfir mörkum. Það ber þó að líta til þess að hávaðakortin eru reiknuð m.v. 4 metra hæð en reglugerð um hávaða kveður á um að viðmiðunarhæð utan við húsvegg sé 2 metra hæð og viðmiðunarmörk innanhúss eru við lokaða glugga. Þar sem mælingarnar eru við 4 metra hæð kunna þær að vera misvísandi fyrir lágreista byggð. Einnig hefur sums staðar verið gripið til ráðstafana til þess að draga úr hávaða sem ekki er tekið tillit til í þessum útreikningum og byrjað er að reikna út hávaðakort fyrir þéttbýlissvæði m.v. 2 metra hæð sem gefa munu betri mynd af raunástandi byggðar.