Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Bensófenón

Bensófenón (e. benzophenone) eru náttúruleg efni sem gleypa og dreifa skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar. Þau koma í veg fyrir ljóssundrun efna og eru því mikið notuð í snyrtivörur til að viðhalda lykt þeirra og lit.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

  • Snyrtivörum
  • Húðvörum
  • Hreinlætisvörum
  • Þvotta- og hreinsiefnum
  • Bragðefnum fyrir matvæli
  • Matarumbúðum úr kartoni
  • Textíl, skóm
  • Íþróttavörum
  • Sólgleraugum

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

  • Með upptöku í gegnum húð 
  • Í gegnum fæðuna
  • Með innöndun

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Grunuð um að trufla innkirtlastarfsemi líkamans
  • Auknar líkur á ljósofnæmi
  • Auknar líkur á snertiofnæmi
  • Lækkun á fæðingarþyngd nýbura
  • Geta haft áhrif á lengd meðgöngu

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja vörur án bensófenóna þegar það er hægt.
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja textíl sem er mertkur með Oeko-Tex 1000.

Nánari umfjöllun um bensófenón

Bensófenón (e. benzophenone) er stór efnahópur með efnum sem myndast í náttúrunni m.a. í blómstrandi plöntum. Efnin gleypa eða hindra útfjólubláa geisla sólarinnar sem gerir það að verkum að þegar þeim er bætt út í vörur þá vernda bensófenónin önnur efni í vörunum fyrir skemmdum geislanna. Því hafa efnin verið mikið notuð í snyrtivörur og vörur til persónulegs hreinlætis til að vernda m.a. lykt og lit gegn niðurbroti. Nokkuð er um að kalla þessi efni UV geislavarnarefni eða útblámasíur, en UV stendur fyrir ultra violet eða útfjólublátt.

Þekktasta og mest rannsakaða bensófenónið er bensófenón-3, einnig kallað BP-3 eða oxybenzone á ensku. Efnið hefur verið notað í margvíslegar vörur á borð við leikföng, snyrtivörur, ýmsar vörur úr plasti, hreinlætisvörur, fingramálningu, módelleir og ýmsar lyktarsterkar vörur. Talið er að efnið sé innkirtla- eða hormónatruflandi þar sem sýnt var fram á möguleg áhrif með tilraunum sem gerðar voru á dýrum. Það er nú í mati hjá Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) vegna hugsanlegra innkirtlatruflandi áhrifa í mönnum.

Vísindanefndin um öryggi neytenda (e. SCCS) álítur að efnið geti hugsanlega valdið snerti- og ljósofnæmi. Í kjölfar þess álits voru settar takmarkanir á notkun efnisins í snyrtivörum og því má styrkur þess í sólarvörnum ekki fara yfir 6 % (massahlutfall) og ekki yfir 0,5 % (massahlutfall) í öllum tegundum snyrtivara til að vernda samsetninguna þeirra (reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir færslu 4 í VI. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1223/2009 með sama heiti; Umhverfisstofnun).

Bensófenón hafa einnig verið notuð sem íblöndunarefni í efnivið sem kemst í snertingu við matvæli. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (e. EFSAtók bensófenón til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu að þolanleg dagleg inntaka (e. tolerable daily intake, TDI) upp á 0,03 mg/kg líkamsþyngdar á dag kæmi í veg fyrir æxlismyndun. Rannsóknir á krabbameinsvaldandi áhrifum á nagdýrum sýndi fram á áhrif efnisins á lifur, nýru og blóðfrumnamyndandi kerfi nagdýra og því er t.a.m. bannað að nota efnið í virk og gaumræn efni (e. active and intelligent materials) og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli (reglugerð nr. 838/2010MAST).

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um bensófenón á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Umfjöllun um öryggi bensófenóns á ensku á heimasíðu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (e. EFSA).

Skýrsla á ensku um álit Vísindanefndar um öryggi neytenda (e. SCCS) um bensófenón-3 (BP-3).

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 21. desember 2022.