Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Ráð og nefndir

Ísland er eitt vatnaumdæmi sem síðan er skipt í fjögur vatnasvæði. Við þá ákvörðun er tekið mið af bæði jarðfræðilegum og vatnafræðilegum þáttum. Fyrir hvert vatnasvæði skal setja fram umhverfismarkmið um að draga úr álagi og bæta eða viðhalda góðu ástandi vatns. 

Vatnaráð

Eitt vatnaráð starfar á landvísu og er megin hlutverk þess að vera ráðherra til ráðgjafar um stjórn vatnamála. Vatnaráð er skipað til fimm ára í senn. Í ráðinu sitja fimm fulltrúar og fimm varamenn, skipaðir af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, atvinnuvegaráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Á hverju vatnasvæði starfar vatnasvæðisnefnd og á landsvísu starfa tvær ráðgjafanefndar.
Skipað var í núverandi vatnasvæðanefndir árið 2023 og vinna þau til ársins 2026. Þessar nefndir eru mikilvægur hlekkurí því að safna upplýsingum um álag á vatnshlot til þess að hægt sé að vinna álagsgreiningu og út frá henni skipuleggja viðeigandi aðgerðir ef þess er þörf.

Vatnasvæðisnefndir

Í vatnasvæðisnefnd starfa fulltrúar frá sveitarfélögum á viðkomandi vatnasvæði og heilbrigðisnefndum. Hlutverk þeirra er að samræma vinnu á viðkomandi vatnasvæði og afla upplýsinga vegna gerðar stöðuskýrslu, vöktunaráætlunar, aðgerðaáætlunar og vatnaáætlunar. Til viðbótar getur hver vatnasvæðisnefnd skipt sér upp í smærri svæðisbundna hópa eftir þörfum.

Ráðgjafanefndir

Tvær ráðgjafarnefndir eru skipaðar af ráðherra til að starfa með Umhverfis- og orkustofnun á landsvísu:

  • Ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila
  • Ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila, þar á meðal félagasamtaka á sviði náttúruverndar, umhverfismála og útivistar

Umhverfis- og orkustofnun skal hafa náið samráð við ráðgjafarnefndirnar.

Hlutverk ráðgjafarnefnda er að vera Umhverfis- og orkustofnun og vatnaráði til ráðgjafar um atriði sem heyra undir stjórn vatnamála.

Ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila skal leggja fram nauðsynleg gögn vegna vinnu við gerð áætlana samkvæmt lögum þessum og upplýsingar um hvaða gögn liggja fyrir.

Fulltrúar í ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila skulu vera til ráðgjafar um þau málefni sem samtök þeirra helga sig. Hvor ráðgjafanefnd ákveður formann og varaformann og hefur starfsmann Umhverfis- og orkustofnunar sér til aðstoðar og til að hafa umsjón með starfi nefndanna.