Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Raftæki

Raf- og rafeindatæki er sá flokkur úrgangs sem hefur aukist hvað mest á heimsvísu síðustu árin og á Íslandi er áætlað að um 7.200 tonn af raftækjaúrgangi falli til árlega. Söfnun til endurvinnslu hefur verið slæm og einungis 37% af raftækjum skilaði sér í endurvinnslu árið 2018. Því settu Úrvinnslusjóður og Umhverfisstofnun í desember 2019 af stað tilraunaverkefni um söfnun raftækja í dagvöruverslunum. Söfnunarkassar hafa verið settir upp í sjö verslunum í fjórum sveitarfélögum á landinu , það eru:

  • Krónunni í Lindum, Kópavogi
  • Nettó í Búðakór, Kópavogi
  • Nettó í Grindavík
  • Bónus á Egilstöðum
  • Nettó á Egilsstöðum
  • Bónus í Vestmannaeyjum
  • Krónan í Vestmannaeyjum.

 

Markmið tilraunaverkefnisins er að auka söfnun til endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum, rafhlöðum, ljósperum og flúrperum með því að færa hana nær almenningi. Kassinn er hannaður til að taka við litlum raftækjum, allt upp í brauðristar og miðlungsstórar fartölvur. Vonast er til þess að verkefnið skili árangri og geti verið fyrirmynd fyrir viðlíka söfnun í framtíðinni.

Raftæki innihalda hráefni sem sótt eru út um allan heim t.d. er báxít sem notað er til að búa til ál frá Ástralíu, blý frá Rússlandi, járn frá Indlandi, kopar frá Brasilíu, stál frá Kína, olía frá Íran og svo mætti lengi telja. Hráefnin eru síðan sett saman á einum stað og þaðan flutt á milli landa til sölu eða notkunar. Því tæknivæddari og flóknari sem vara er, því fleiri og fjölbreyttari hráefni þarf til að framleiða hana og oft  endar hlutfallslega minna af hráefninu í lokaafurðinni. Allt þetta ferli hefur í för með sér mikil neikvæð umhverfisáhrif.

Þess vegna er mikilvægt að böndum sé komið yfir bæði ofneyslu á þessum vörum og að þeim sé skilað í endurvinnslu eða endurnýtingu þegar fólk hættir að nota tækin. Endurnýting og endurvinnsla á efnum eins og kopar, gull o.fl. minnkar ágang á óendurnýjanlegar auðlindir jarðarinnar.

Auk þess innihalda þessar vörur verðmæt efni sem eru skaðleg fyrir umhverfið og heilsu okkar. Árið 2006 var sett bann við að flytja inn, flytja út, dreifa eða selja ný raftæki ef í þeim væri blý, kadmíum, kvikasilfur, sexgilt króm, PBB (fjölbróm-bífenýl) eða PBDE (fjölbróm-dífenýleter), en eldri raftæki gætu innihaldið eitthvert þessara efna. Önnur efni sem geta verið skaðleg eru þó enn til staðar í raftækjum s.s. kopar og plastefnið PVC.   

Raftæki eiga alls ekki að fara í tunnuna fyrir venjulegt heimilissorp og eiga öll ný raf- og rafeindatæki að vera merkt með yfirstrikaðri sorptunnu sem gefur það til kynna.

Nokkur góð ráð

  • Förum vel með raftækin en gott viðhald á raftækjum tryggir betri endingu þeirra og minnkar brunahættu af völdum rafstraums.
  • Gerum við raftæki fremur en að kaupa ný.
  • Gefið raftæki sem ekki nýtast lengur, til annarra eða farið með þau á nytjamarkaði.
  • Skilum öllum úr sér gengnum raftækjum á endurvinnslu- eða móttökustöð, en það er gjaldfrjálst.
  • Gamlar rafhlöður fara að leka með tímanum og geta skemmt raftækið.
  • Raftæki eiga að vera CE merkt. CE merking gefur til kynna að tækið uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggis-, heilsu- og umhverfisvernd sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um.
  • Minnkum rafmagnsnotkun. Að setja rafmagnstæki í biðstöðu (stand by) eyðir líka rafmagni svo best er að slökkva alveg á tæki eða taka það úr sambandi.
  • Rafhlöður og rafgeymar flokkast sem spilliefni vegna þeirra efna sem þau geta innihaldið eins ogkadmíum, kvikasilfur, blý og ætandi sýrur. Yfirleitt ber rafhlaðan merkingar sem tilgreina hvaða efni hún inniheldur en því miður ekki alltaf. Þess vegna er mjög mikilvægt að farga öllum rafhlöðum á sama hátt en samkvæmt lögum er bannað að henda rafhlöðum með óflokkuðum úrgangi. Gott er að velja Svansmerktar rafhlöður en þá er víst að þær innihaldi ekki óæskileg efni eða þá endurhlaðanlegar rafhlöður sem má nýta aftur og aftur í stað þess að kaupa nýjar rafhlöður og henda þar af leiðandi fleirum.

 

Hægt er að skila notuðum rafhlöðum á endurvinnslustöðvar, til spilliefnamóttöku og til sölu- og dreifingaraðila (bensínstöðvar, raftækjaverslanir og fleiri) rafhlaða og rafgeyma. Athugið að gamlar rafhlöður geta lekið og því er ekki gott að geyma þær lengi. Á meðan átaksverkefni í söfnun raftækja, sem fjallað er um hér að ofan, stendur er einnig hægt að skila minni raf- og rafeindatækjum, rafhlöðum, ljósperum og flúrperum í valdar verslanir.

 

Fyrir frekari upplýsingar um magn og endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum og rafhlöðum og rafgeymum er hægt að skoða tölfræði.