Umhverfistofnun - Logo

Hringrásarhagkerfið

Hvað er hringrásarhagkerfið?

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og nær einnig til þess að endurmeta og endurskilgreina lífsgæði. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna.Deila
Með því að draga úr eignarhaldi vara og leggja frekar áherslu á að auka aðgengi að þeim er hægt að ná fram skilvirkari neyslu. Sameign vara og auðlinda (t.d. deilibílar, bókasöfn og samakstur) gerir notkun auðlinda skilvirkari og dregur úr umhverfisáhrifum.

Gera við
Viðgerðir auka líftíma vara. Vörur eru almennt endingarminni og erfiðara að gera við þær en áður. Með að efla og ýta undir viðgerðir, meðal annars með að gera varahluti og upplýsingar aðgengilegri, er hægt að glæða vörur nýju lífi.

Endurnota
Með að nota vörur áfram í óbreyttu formi, til dæmis með að skipta um eigendur, er hægt að koma í veg fyrir framleiðslu á nýjum vörum. Vörur svo sem glerflöskur er hægt að nota mörgum sinnum áður en þeim er fleygt.

Endurframleiða
Hægt er að endurframleiða vörur, svo sem raftæki, samkvæmt forskrift framleiðandans með að sameina endurnotkun, viðgerðir og nýja íhluti.

Endurvinna
Efni eins og málma, pappír, gler og plast er hægt að endurvinna og nýta sem endurheimt hráefni í stað nýrra. Þegar efni er endurunnið er það orðið að úrgangi, mikilvægt er að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að auðlindin verði að úrgangi til að byrja með.  

Hringrásarhagkerfið á Íslandi
Árið 2016 var samþykkt úrgangsforvarnarstefna ríkisins sem hefur verið unnið eftir síðan. Þar er lögð áhersla á að draga úr úrgangsmyndun og viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Stefnan var eitt fyrsta skrefið í innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Uppfærð stefna um meðhöndlun úrgangs er annar liður í stefnumótun ríkisins í átt að hringrásarhagkerfi en þar er áherslan aðallega á endurvinnslu, það er að segja að finna farvegi fyrir þær auðlindir sem ekki er komist hjá að verði að úrgangi. Í drögum að stefnu um meðhöndlun úrgangs er þó auk þess settar fram aðgerðir sem miða að því að gera viðgerðir og endurnotkun betri og ódýrari valkost. Full innleiðing hringrásarhagkerfisins felur í sér að skoða hvernig hægt er að auka eftirspurn eftir notuðum og endurunnum efnum í framleiðslu og auka hlut endurframleiðslu.

 

 Áhugaverðir tenglar:
Hringrásarhagkerfi í Evrópu: Við höfum öll hlutverk 
Ellen MacArthur Foundation 
Hringrásarhagkerfið í byggingariðnaði