Umhverfistofnun - Logo

Landeigendafundir á Umhverfisstofnun

Þann 20 og 24. október 2011 voru fundir haldnir á Umhverfisstofnun með umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur og landeigendum á svæinu. Stór hluti landeigenda eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og var tilgangur fundarins sá sami og fundirnir sem haldnir voru fyrir vestan í septemberlok, þ.e. að ræða hvað fælist í stofnun þjóðgarðs fyrir landeigendur, sveitarstjórn og aðra íbúa svæðisins,  hvert markmið friðlýsingarinnar væri, hvaða lagaleg áhrif hún hefði, og hver væri hinn samfélagslegi ávinningur.

Efni fundanna var vinna að deiliskipulagi og tillaga að friðlýsingu í samræmi við náttúruverndaráætlun á vestasta hluta svæðisins, þ.e. Látrum, Breiðavík og Keflavík.

 

Fundur með landeigendum á Látrum og Keflavík

Fimmtudaginn  20. október var haldinn fundur á Umhverfisstofnun með umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur og  landeigendum á Látrum og Keflavík. Stór hluti landeigenda eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og var tilgangur fundarins sá sami og fundirnir sem haldnir voru fyrir vestan í septemberlok, þ.e. að ræða hvað fælist í stofnun þjóðgarðs fyrir landeigendur, sveitarstjórn og aðra íbúa svæðisins,  hvert markmið friðlýsingarinnar væri, hvaða lagaleg áhrif hún hefði, og hver væri hinn samfélagslegi ávinningur.

Frá Umhverfisráðuneytinu kom ásamt ráðherra Guðrýður Þorvarðardóttir sérfræðingur á sviði náttúruverndar. Frá Umhverfisstofnun voru mættir  Kristín Linda Árnadóttir forstjóri, Anna Kristín Ólafsdóttir sérfræðingur á sviði friðlýsinga, Hákon Ásgeirsson sérfræðingur á sunnanverðum vestfjörðum og fundarstjóri var Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri laga og stjórnsýslu. Fyrir hönd Vesturbyggðar sat fundinn Arnheiður Jónsdóttir, bæjarfulltrúi. Á fundinn mættu um 70 manns og 37 landeigendur merktu við nafn sitt á lista yfir skráða landeigendur á Látrum og í Keflavík.

 

Fundur með landeigendum á öðrum svæðum

Annar fundur með sama sniði  var haldinn mánudaginn 24. október með landeigendum utan þess svæðis sem liggur milli Keflavíkur og Breiðavíkur en innan þjóvegar á Kleifarheiði. Ásamt fulltrúum frá Umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun sat Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar fundinn. Fundastjóri var Aðalbjörg  Birna Guttormsdóttir deildarstjóri á sviði náttúruauðlinda. Á fundinn mættu um 30 manns og 18 landeigendur merktu við nafn sitt á lista yfir skráða landeigendur á svæðinu frá Kleifarheiði að Keflavík og Breiðavík.

Fundarstjóri kynnti aðdraganda að tillögu um friðlýsingu, þ.e. skv. náttúruverndaráætlun 2004 – 2008 sem seinna færðist yfir í náttúruverndaráætlun 2009-2013 og tillögur í aðalskipulagi Vesturbyggðar um friðlýsingu á svæðinu. Anna Kristín hélt framsögu um tilgang, eðli og áhrif friðlýsinga,verndargildi svæðisins, friðlýsingarferlið sem samráðsferli, muninn á friðlandi og þjóðgarði, og hvaða áhrif stofnun þjóðgarðs gæti haft á uppbyggingu innviða og atvinnusköpun á svæðinu. Anna Kristín áréttaði að um kynningafund væri að ræða og ekki væri til þess ætlast að landeigendur tækju afstöðu á þessu stigi til tillögu að friðlýsingu. Hákon sagði frá starfsemi og hlutverki Látrastofu og hvert hlutverk hans væri sem sérfræðingur, en það er meðal annars umsjón með friðlýstum svæðum á sunnanverðum Vestfjörðum, Vatnsfirði, Surtabrandsgili og Dynjanda. Þá hefur hann sinnt landvörslu á Látrabjargi og nágrenni þess í sumar í umboði stjórnar landeigendafélagsins Bjargtanga. Hákon hefur ekki lögformlegt umboð til að sinna landvörslu á svæðinu þar sem það er ekki friðlýst. Þá sagði hann frá starfi landvarða og hvaða hlutverki þeir gegna á friðlýstum svæðum.

Miklar umræður sköpuðust um hugmyndina að friðlýsingu Látrabjargs og nágrennis og voru þessar spurningar meðal annars lagðar fram af fundargestum;

 • Verður nýtingaréttur landeigenda skertur með friðlýsingu?
 • Verður friðlýsing á einhvern hátt íþyngjandi fyrir landeigendur og þá hvernig?
 • Tapa landeigendur sjálfstæði sínu hvað landareign þeirra varðar með friðlýsingu?
 • Verður veittur styrkur til landeigenda til að sinna vinnu við deiluskipulag?
 • Þegar nýr vegur verður lagður fyrir ofan þorpið á Hvallátrum, fá landeigendur að loka veginum í gegnum þorpið?
 • Er hægt að vernda svæðið á annan hátt en með friðlýsingu og veita fjármagni frá ríkinu í framkvæmdir til að vernda svæðið?
 • Hvort er verið að tala um þjóðgarð eða friðland? Hver er munurinn?
 • Hver er tímarammi friðlýsingar og verkáætlunar?
 • Þegar landeigandi vill fara í framkvæmdir, þarf hann að greiða fyrir leyfisveitingu frá Umhverfisstofnun?
 • Getur samkomulag um friðlýsingu á landi  verð mismunandi milli landeigenda eða er eitt samkomulag gert við alla landeigendur?

Ætlunin er að vinna skjal með algengum spurningum um friðlýsingar og svör við þeim og setja undir  þennan hlekk .

Einnig komu upp ýmsar vangaveltur á meðal fundargesta um áhrif friðlýsingarinnar og voru þær m.a. þessar;

 • Þjóðgarður þýðir að aðgengi fyrir ferðamenn verði bætt, hvaða áhrif hefur það á svæðið?
 • Sagt hefur verið áður að nytjar landeigenda á landinu verði óbreytt eftir friðlýsingu, en umhverfisráðherra hefur sett á stofn starfshóp til að kanna stöðu svartfuglastofnsins, en svartfugli hefur fækkað við landið. Gæti það komið niður á hefðbundnum nytjum á svartfugli í Látrabjargi?

Nokkrar athugasemdir komu frá landeigendum á Látrum, m.a. að mikilvægt væri að draga úr ónæði af ferðamönnum eins og t.d. að færa veginn á Látrum upp fyrir þorpið. Ef vegur er færður ofan við þorpið þá þarf hann að vera með bundnu slitlagi til að koma í veg fyrir rykmengunn. Þá var talað um að samþykki þarf að nást áður en landeigendur geti tjáð sig um friðlýsingu. Það þarf einnig að kynna sem fyrst deiluskipulag, vegagerð á svæðinu öllu og drög að friðlýsingarskilmálum. Lagt var áherslu á að landeigendur þurfi að koma að og taka þátt í öllum ákvörðunum um framtíð svæðisins.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri hélt tölu um fyrirhugaða friðlýsingu og sagði að sveitafélagið hafi átt forgöngu um að tillagan um friðlýsingu Látrabjargs yrði tekin til umræðu. Það vakti mikla ánægju hjá bæjarstjórn Vesturbyggðar að starfsmaður frá Umhverfisstofnun var ráðin til heilsárs starfa til að sinna friðlýstum svæðum á sunnanverðum vestfjörðum og landvörslu við Látrabjarg. Ásamt því að vera í viðræðum við landeigendur um framtíðarskipulag Látrabjargs og nágrennis. Ásthildur telur að ef samkomulag næst um stofnun þjóðgarðs á svæðinu þá muni það verða mikil lyftistöng fyrir sveitafélagið hvað varðar atvinnumöguleika og komi til með að draga úr fólksfækkun. Þá muni það bæta ímynd svæðisins og sjálfsmynd íbúa, og að þetta verði að vera samkomulag milli landeigenda, ríkis og sveitafélags.

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, átti lokaorðin á fundinum og sagði m. a. að Látrabjarg hefur alþjóðlegt gildi, þar sem það er stærsta fuglabjarg í Evrópu, þar er stærsta álkubyggð í heimi og bjargið er ekki bara vestasti tangi landsins heldur álfunnar Evrópu einnig. Verndargildi svæðisins er því mjög mikið. Ríkistjórnin leggur áherslu á að auka ferðamennsku sem kallar á stýringu umferðar og það að koma í veg fyrir átroðning til þess að verndargildi svæða glatist ekki. Um 80% af ferðamönnum sem heimsækja landið koma til að skoða náttúru þess. Þörf er á að byggja upp og halda utan um okkar helstu náttúruperlur, þar á meðal Látrabjarg og nágrenni þess. Friðlýsing og uppbygging þjóðgarðs er eilífðarverkefni sem er samstarf á milli landeigenda. ríkis og sveitafélags.