Upplýsingar til rekstraraðila

Mikilvægar dagsetningar

31. mars – Frestur á skilum losunarskýrslu rennur út (athugið að vöktunarskýrsla þarf að vera samþykkt af Umhverfisstofnun fyrir skil)

30. júní – Frestur á að skila skýrslu um úrbætur rennur út

30. september – Frestur á að gera upp losunarheimildir í skráningarkerfinu rennur út

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar (ESB) 2019/331 um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila í staðbundnum iðnaði (hér eftir nefnd FAR) geta rekstraraðilar nú sótt um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda hjá Umhverfisstofnun fyrir tímabilið 2026-2030. Í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir síðustu misseri og í ljósi breytinga á FAR sem tóku gildi nýverið, sbr. reglugerð (ESB) 2024/873, hefur Umhverfisstofnun ákveðið að framlengja frest til að leggja fram umsókn um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til og með 30. júní 2024., til hagræðis fyrir rekstraraðila.

Eftirfarandi gögn skulu fylgja með umsókn:

  1. Skýrsla um grunngögn (e. baseline data report):

Breytingar eru á sniðmáti skýrslu grunngagna að því leyti að nú þarf að svara nokkrum atriðum sem snúa að orkuúttekt og tilmælum úr slíkri úttekt. Við biðjum ykkur um að fylla inn þau atriði eftir bestu getu, en horft er til þess hvort að orkuúttekt hafi verið framkvæmd eða orkunýtnistjórnunarkerfi innleitt á fyrstu fjórum árum grunntímabils, þ.e. 2019-2022. Þegar ákvæði um orkuúttekt voru sett í tilskipun 2003/87/EB (ETS-tilskipunina) með tilskipun (ESB) 2023/959 var gerð aðlögun fyrir EES/EFTA-ríkin um sambærilegar ráðstafanir í samræmi við landslög EES/EFTA-ríkjanna. Stendur nú yfir vinna við innleiðingu þessa skilyrðis í íslenskan rétt og mun Umhverfisstofnun tilkynna rekstraraðilum um nánari útfærslu þess eins fljótt og mögulegt er.

Ef þörf er á mun stofnunin óska eftir leiðréttingum á ósamræmi eða villum í skýrslu grunngagna. Sömuleiðis getur stofnunin óskað eftir frekari gögnum eftir því sem þörf er á, sbr. 23. gr. reglugerðar nr. 606/2021 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

  1. Áætlun um aðferðafræði vöktunar:

Samkvæmt 6. gr. FAR skal vakta þær upplýsingar sem skila þarf inn í samræmi við áætlun um aðferðafræði vöktunar sem er samþykkt af Umhverfisstofnun.

Við vekjum athygli á að breytingar hafa átt sér stað á sniðmáti fyrir aðferðafræði vöktunar í kjölfar samþykktar á reglugerð (ESB) 2023/956 um aðlögunarkerfi við landamæri vegna kolefnis (e. Carbon Border Adjustment Mechanism, CBAM). Í C hluta sniðmátsins um lýsingu á stöð og skiptingu í undirstöðvar þarf að veita upplýsingar um hvort framleiðsla á vörum sem fellur undir I. viðauka þeirrar reglugerðar fari fram á undirstöð til viðbótar við upplýsingar um hvort að undirstöðin þjóni geirum eða undirgeirum sem er hætt við kolefnisleka (e. carbon leakage), líkt og var til staðar í fyrra sniðmáti. Rekstraraðilar fylla út eftir bestu getu, jafnvel þó að umrædd reglugerð hafi ekki verið tekin upp í EES-samninginn þegar þetta er sent út.

Ekki þarf að skila inn vottunarskýrslu fyrir aðferðafræði vöktunar.

  1. Vottunarskýrsla:

Vottunarskýrsla fyrir skýrslu um grunngögn þarf að fylgja umsókn þeirra rekstraraðila sem eru innan ETS-kerfisins.

Á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar má finna upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn, frekari upplýsingar og leiðbeiningaskjöl. Umhverfisstofnun bendir sérstaklega á leiðbeiningaskjal nr. 5 sem er gert til þess að leiða rekstraraðila í gegnum sniðmátin. Einnig geta upplýsingar í leiðbeiningaskjölum nr. 2, 8 og 9 komið að góðum notum.

Athugið að rekstraraðilar sem eru undanskildir ETS-kerfinu skv. 20. gr. laga nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir þurfa einnig að skila inn skýrslu um grunngögn og áætlun um aðferðafræði vöktunar jafnvel þó að þeir sæki ekki um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda. Þeir rekstraraðilar sem eru undanskildir ETS-kerfinu þurfa ekki að láta votta skýrslu um grunngögn nema möguleiki sé á að losun frá rekstraraðila fari yfir 25.000 tCO2 á einu eða fleiri árum úthlutunartímabilsins.

Vakin er athygli á því að enginn rekstraraðili í staðbundnum iðnaði hér á landi þarf að leggja fram kolefnishlutleysisáætlun eins og staðan er í dag.

Losunarstuðlar

Losunarstuðlar kolefnis og nettóvarmagildi úr losunarbókhaldi Íslands til stuðnings rekstaraðila starfsstöðva í ETS

Upplýsingarnar í tenglinum hér að neðan eru settar fram til að styðja við rekstraraðila í viðskiptakerfi Evrópusambandsins sem nota losunarstuðla fyrir aðferðaþrep 2a og 2b til að reikna út losun á koltvísýringi (sbr. rg. 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir).                 

Losunarstuðlarnir eru að mestu fengnir úr bókhaldi Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti (NIR skýrslu ársins 2015/2016) sem skilað er árlega til rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.                       

Stuðlana í þessu skjali skal nota í samræmi við kröfur í vöktunaráætlun og losunarleyfi starfstöðvarinnar í samræmi við reglugerð 72/2013 um vöktun og skýrslugjöf.                            

Losunarstuðlar