Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Norrænt samstarf

 

Umhverfisstofnun tekur virkan þátt í norrænu samstarfi og er meðal annars með fulltrúa í ýmsum undirhópum Norræna vinnuhópsins um efni, heilsu og umhverfi (NKE). Vinnuhópurinn var stofnaður í þeim tilgangi að hjálpa til við að lágmarka neikvæð áhrif efna í vörum, útblæstri og úrgangi á heilsu og umhverfi.

Norræni skimunarhópurinn - NScG

Norræni skimunarhópurinn er einn af undirhópum NKE og beitir sér fyrir því að gera skimunarrannsóknir til að afla þekkingar á tíðni og útbreiðslu skaðlegra efna á Norðurlöndunum og norðurslóðum. Reynt er að fá mynd af ástandi svæða, bæði þeirra sem talin eru menguð og þeirra sem álitin eru óspillt.

Meginmarkmið hópsins er að skima fyrir minna þekktum manngerðum efnum og afleiðum þeirra hvort sem þau eru notuð í miklu magni eða eru talin líkleg til að vera þrávirk og skaðleg lífverum. Niðurstöðum úr slíkum skimunarrannsóknum er miðlað áfram til Evrópuráðsins þar sem það er notað við uppfærslur á skrám vatnatilskipunar ESB yfir forgangsefni, áhættumati efna skv. REACH og val á efnum sem heyra undir OSPAR (samningurinn um verndun Norðaustur-Atlantshafsins) og HELCOM (samningurinn um verndun Eystrasaltsins). Hópurinn hefur einnig staðið að málstofum og ráðstefnum til að auka þekkingu á efnunum, eiginleikum þeirra og váhrifum ásamt því að miðla þekkingu á skimunarrannsóknum.

Heimasíða hópsins

Skimunarhópurinn heldur úti sinni eigin heimasíðu, nordicscreening.org, þar sem hægt er að skoða útgefnar skýrslur, fyrrum málstofur og ráðstefnur, niðurstöður rannsókna og starfsemi hópsins.