Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Almennt um merkingar

Efni og efnablöndur sem flokkaðar eru sem hættulegar eiga að bera viðeigandi merkingar og skulu þær vera á íslensku. Þau skulu varðveitt í umbúðum sem hæfa innihaldi þeirra svo að skaði hljótist ekki af. Merkingarnar fylgja sérstökum reglum um form og innihald. Merkingu er ætlað að gefa til kynna þá hættu sem af efnunum stafar og vera leiðbeinandi um notkun og geymslu auk þess að gefa upplýsingar um hvað gera skuli ef slys ber að höndum. Hver aðili í aðfangakeðju ber ábyrgð á að efnavörur séu rétt merktar við afhendingu. Birgjar skulu sjá til þess að efnavörur fari ekki í dreifingu án réttra merkinga. Seljendum er óheimilt að afhenda hættulegt efni eða efnablöndu sem er vanmerkt.

Um merkingar og umbúðir hreinna efna og efnablandna gildir reglugerð nr. 415/2014. Í efnalögum  nr. 61/2013 kemur fram að birgjar skuli tryggja að umbúðir efna og efnablandna séu traustar, ólekar og nægilega öruggar til að varðveita vöruna án þess að skemmdir verði á umbúðum eða innihaldi þeirra við eðlilega meðhöndlun. Jafnframt skulu þeir tryggja að umbúðir efna og efnablandna, sem ætlaðar eru til dreifingar á almennum markaði, séu hvorki þannig að formi né útliti að þær veki forvitni og athygli barna eða svo að villast megi á þeim og umbúðum undir matvæli, fóður, lyf eða snyrtivörur.