Stök frétt

Reynsla af gjaldtöku í Landmannalaugum sumarið 2024 var almennt jákvæð.

Skoða fréttina á ensku / See this article in English

Umhverfisstofnun mun taka þjónustugjald í Landmannalaugum sumarið 2025. Gjaldtakan hefst um leið og vegir að svæðinu opna, eða í síðasta lagi 20. júní, og mun standa fram á haust. Afnot að salernisaðstöðu á svæðinu verður innifalið í gjaldinu. Áfram verður þörf á að bóka bílastæði yfir álagstíma.

Bókunarkerfi 

Gestir sem hyggjast heimsækja Landmannalaugar á eigin vegum á milli kl. 9:00 og 16:00 þurfa að bóka bílastæði fyrirfram. Þetta fyrirkomulag gildir alla daga frá 20. júní til 14. september (báðir dagar meðtaldir).  

Gestir sem bóka bílastæði fyrirfram greiða þjónustugjaldið þegar bókunin er gerð. Þeir gestir sem koma utan þess tíma sem bókana er þörf munu geta greitt þjónustugjaldið eftirá í gegnum app eða greiðslugátt og verða upplýsingar um það á staðnum, en annars verður send rafræn krafa.  

Nánari upplýsingar um bókunarkerfið koma á nýju ári. 

Mikilvægt að bóka bílastæði fyrirfram 

Sumarið 2024 voru bílastæði uppbókuð og full nær alla daga yfir háönn ferðatímabilsins. Því er mikilvægt að tryggja sér stæði fyrirfram ef ætlunin er að njóta dagsins í Landmannalaugum. Ef komið er á svæðið á milli kl. 9 og 16 án bókunar er ekki hægt að tryggja að gestir fái stæði í Landmannalaugum. Eftir kl. 16 verður ekki þörf á að eiga bókun.

Reynsla af gjaldtöku í Landmannalaugum sumarið 2024 var almennt jákvæð.

Gestir sem koma án bókunar í Landmannalaugar milli kl. 9 og 16 fá ef til vill ekki bílastæði.

Eitt þjónustugjald með samkomulagi við Ferðafélag Íslands 

Umhverfisstofnun og Ferðafélag Íslands (FÍ) hafa gert samkomulag um gjaldtöku í Landmannalaugum fyrir sumarið 2025. Með samkomulaginu er tryggt að allir gestir sem koma á svæðið munu hafa aðgang að salernum FÍ. Á þetta við óháð því hvort komið sé á eigin vegum eða með ferðaþjónustuaðilum. Ekki verður lengur innheimt sérstakt aðstöðugjald/salernisgjald í Landmannalaugum líkt og gert hefur verið um árabil – það er nú innifalið í þjónustugjaldi sem innheimt er af hverju ökutæki.

Bætt þjónusta og einfaldara kerfi

Markmiðið með breyttu fyrirkomulagi er að bæta upplifun gesta í Landmannalaugum og draga úr álagi á svæðinu. Með því að sameina þjónustugjald Umhverfisstofnunar og aðstöðugjald FÍ verður kerfið einfaldara fyrir gesti, sem þurfa nú aðeins að greiða eitt gjald fyrir aðgang að bílastæðum og salernum. Þjónustugjaldið verður innheimt af hverju ökutæki allan sólarhringinn við komu og er óháð því hve lengi dvalið er á svæðinu.

Áfram þarf þó að greiða sérstaklega fyrir gistingu í tjaldi eða skála hjá FÍ. 

Til að draga úr umferðartöfum verður tekið í notkun myndavélakerfi sem vaktar umferð að svæðinu. Þetta nýja kerfi gerir eftirlitið hálf-sjálfvirkt og tryggir að engin þurfi að bóka sig inn á staðnum, sem skapaði töluverðar tafir síðasta sumar. Starfsfólk verður þó áfram til staðar við aðkomuveg á háannatíma til að stýra aðgengi þeirra sem eiga bókanir.

Jákvæð reynsla af álagsstýringu 2024 

Reynslan af álagsstýringunni sumarið 2024 var almennt jákvæð. Umferðarflæði við Landmannalaugar batnaði og bílastæði urðu sjaldan yfirfull. Áfram þó mynduðust enn umferðarhnútar á álagstímum, sérstaklega þar sem eftirlitið var viðhaft í Sólvangi. Þar varð oft mikil bílaröð vegna eftirlitsins og þess að gestir voru að bóka sig inn á staðnum áður en þeir fengu aðgang að bílastæðum.

Í ljósi reynslunnar og athugasemda frá ferðaþjónustuaðilum verða bókanir sumarið 2025 áfram nauðsynlegar fyrir einkabíla á milli kl. 9 og 16, en það var áður frá kl. 8 til 15.

Sumarið 2024 mynduðust enn umferðarhnútar á álagstímum í Landmannalaugum.

Ferðaþjónustuaðilar þurfa ekki að bóka

Líkt og síðasta sumar verður ferðaþjónustan undanskilin bókunarskyldu í Landmannalaugum sumarið 2025. Ferðaþjónustuaðilar greiða þó sama þjónustugjald og aðrir gestir fyrir sína bíla. Það tryggir jafnræði í gjaldtöku og veitir jafnframt öllum gestum sem koma með ferðaþjónustuaðilum til Landmannalauga aðgengi að salernum án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir.

Uppfærð gjaldskrá fyrir 2025

Ný gjaldskrá fyrir bílastæði í Landmannalaugum verður birt í upphafi árs 2025. Gjaldskráin tekur mið af breyttu fyrirkomulagi gjaldtöku og bókunarkerfisins. Markmiðið er að tryggja sanngjarna gjaldtöku og góða þjónustu fyrir alla gesti.

Frekari upplýsingar verða aðgengilegar á heimasíðu nýrrar Náttúruverndarstofnunar eftir áramót.  

Tengt efni: