Stök frétt

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Samkvæmt frétt á vef Matvælastofnunar gefa bráðabirgðaniðurstöður sýna úr villtum fuglum til kynna að fuglaflensan sé að ná sér á strik aftur eftir tíðindalítið sumar. Sýni sem nýlega voru tekin úr tveimur hröfnum, sem fundust annars vegar á Laugarvatni og hins vegar í Öræfum reyndust jákvæð. Þá hafa einnig greinst jákvæð sýni úr hettumáfum á Húsavík. Fréttir hafa borist af frekari fugladauða og vinnur Matvælastofnun nú að því að greina gerð veiranna og fá yfirsýn yfir umfang vandans.

Umhverfisstofnun beinir þeim tilmælum til veiðimanna að vera á varðbergi varðandi sjúka og dauða fugla. Í því sambandi bendir Umhverfisstofnun á síðu Matvælastofnunar þar sem finna má upplýsingar um fuglaflensu. Þar eru einnig leiðbeiningar um hvað skal gera ef villtur fugl finnst dauður eða veikur og grunur er um fuglaflensu. 

Veiðimenn með veiðihunda og aðrir hundaeigendur eru hvattir til að hafa hunda sína í taumi svo þeir komist síður í snertingu við dauða fugla.