Stök frétt

Umhverfisstofnun kynnir drög að stækkun náttúruvættisins Hverfjalls í Mývatnssveit (skv. 2. mgr. 38. gr. og 2 mgr. 39 gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd).

Breytingin er unnin að beiðni landeigenda, í samstarfi Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, landeigenda og Þingeyjarsveitar og felst í að raskað svæði vestan Hverfjalls fellur út fyrir friðlýsta svæðið en óraskað svæði austan Hverfjalls verður innan verndar.

Fyrir breytingu var svæðið um 3,1 km2 en verður 3,78 km2 eftir breytingu. 

Verndargildi svæðisins felst í hinni einstöku jarðmyndun sem Hverfjall er, hringlaga öskugígur, um 1000 m í þvermál, sem rís 90 – 150 m yfir umhverfið. Gígurinn myndaðist fyrir um 2500 árum í þeytigosi í grunnu stöðuvatni. Hlíðar hans eru brattar og þétt settar af vatnsrásum. Hann er í röð fegurstu og reglubundnustu öskugígamyndana sem gefur að líta á Íslandi og talinn í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Hverfjall er syðsti hluti a.m.k. 1800 m langrar gossprungu. 

Stækkun náttúruvættisins er hér með auglýst og gefst tækifæri til að senda inn athugasemdir eða ábendingar til og með 13. ágúst.

Árangur í náttúruvernd er bestur ef samstaða og gagnkvæmur skilningur ríkir um verndun. Því álítur Umhverfisstofnun mikilvægt að fá sem flest sjónarmið á borð samstarfshóps svo ákvarðanataka verði sem vönduðust. Stofnunin hvetur því þau sem telja sig málið varða, eða hafa ábendingar að senda þær inn.

 

Tengt efni: