Stök frétt

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir landslagsverndarsvæðið Þjórsárdal.


Svæði í Þjórsárdal var friðlýst í janúar 2020. Þjórsárdalur býr yfir jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sérstöku og fögru landslagi ásamt sérstökum náttúrufyrirbærum sem þar er að finna, þ.e. Gjánni, Háafossi, Granna og Hjálparfossi, ásamt þykkum gjóskulögum og þyrpingum gervigíga. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu

Markmiðið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir landslagsverndarsvæðið er að móta framtíðarsýn og stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess til framtíðar. Einnig er henni ætlað að samræma fjölbreytta hagsmuni þeirra sem nýta svæðið til landbúnaðar, ferðaþjónustu, útivistar og rannsóknar með hag náttúru og mannlífs að leiðarljósi. Vegna þess hve viðkvæmar jarðminjar og lífríki er að finna á svæðinu er lögð áhersla á stýringu umferðar gesta um svæðið.