Stök frétt

Frá vinstri: Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, Skúli Þórðarson, sviðsstjóri á sviði efna, starfsleyfa og veiðistjórnunar, Ísak Sigurjón Bragason, teymisstjóri í teymi efnamála, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Þórhildur Kristinsdóttir, svæðissérfræðingur á Vesturlandi og Ásta Karen Helgadóttir, sérfræðingur í teymi losunarbókhalds. Þau Skúli, Ísak, Þórhildur og Ásta munu starfa á Hvanneyri.

Umhverfisstofnun hefur opnað nýja starfsstöð á Hvanneyri. Starfsstöðin var opnuð formlega miðvikudaginn 21. febrúar af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra, og Sigrúnu Ágústsdóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar.  

Við opnunina voru einnig Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans og fulltrúar stofnana og fyrirtækja sem starfa á Hvanneyri. 

Börn af elstu deild leikskólans Andabæjar á Hvanneyri sungu tvö lög fyrir gesti. 

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis, orku- og loftslagsráðherra og Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar við opnunina á Hvanneyri.

Fjölbreytt verkefni á Hvanneyri

„Við höfum lagt á það áherslu á undanförnum tveimur árum að færa störf í stofnunum ráðuneytisins út á land, þangað sem verkefnin eru. Staðarþekking verður aldrei ofmetin og það er ánægjulegt að sjá Umhverfisstofnun sýna framsýni og skynsemi með því að opna starfsstöð hér á Hvanneyri“ sagði Guðlaugur Þór.

Á starfsstöðinni á Hvanneyri starfa alla jafna 3-4 starfsmenn Umhverfisstofnunar. Verkefni þeirra tengjast:

  • Umsjón náttúruverndarsvæða á Vesturlandi og Norðurlandi vestra
  • Efnamálum
  • Loftslagsmálum
  • Stjórnun

Þórhildur Kristinsdóttir, svæðissérfræðingur náttúruverndarsvæða á Vesturlandi og Norðurlandi vestra, starfar frá Hvanneyri.

Spennandi starfsstöð

Hvanneyri er spennandi starfsstöð í hjarta friðlandsins Andakíls. Þar er fjölbreytt starfsemi ríkisstofnana og fyrirtækja. Í húsinu er meðal annars starfsfólk Matís, Matvælastofnunar, Lands og skógar, Eflu, Environice, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Búnaðarsamtaka Vesturlands.

Flest störf hjá Umhverfisstofnun eru auglýst þannig að umsækjendur hafa val um starfsstöð og starfar stofnunin nú á 11 stöðum á landinu.

„Það fylgja því auðvitað ýmis verkefni að reka starfsstöðvar vítt og breytt um landið en við lítum svo á að ávinningurinn sé verulegur. Með því að bjóða upp á störf um allt land fjölgar tækifærum í mannauðsmálum og starfsánægja eykst“ sagði Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar. 

Leikskólabörn á Hvanneyri tóku lagið.

Þórhildur sagði frá því að Hvanneyri er í friðlandinu Andakíl.

  Í aðstöðu Umhverfisstofnunar á Hvanneyri eru vinnustöðvar fyrir fjóra og fundarherbergi

Í húsinu er starfsemi fjölda annarra fyrirtækja og stofnana.