Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur borist umsóknir frá ORF Líftækni hf. um leyfi til afmarkaðrar notkunar erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera, þar sem rækta á erfðabreytt bygg í tilraunagróðurhúsi Garðyrkjuskólans (Fjölbrautaskóla Suðurlands) að Reykjum, Hveragerði og í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldnaholti. Einnig er áætlað að geyma fræ í lokuðum fræbönkum að Keldnaholti. 
Umsóknirnar koma til þar sem ORF Líftækni hefur þurft að færa alla starfsemi sína frá Grindavík vegna jarðhræringa, þar sem húsnæði þeirra eyðilagðist, en þau hafa haft leyfi til ræktunar erfðabreytts byggs í Grænu smiðjunni, sjá leyfi hér. ORF Líftækni hefur áður haft leyfi til ræktunar á erfðabreyttu byggi að Reykjum, sjá hér og hefur ræktað óerfðabreytt bygg að Keldnaholti.
Starfsemin sem hér um ræðir fellur undir lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur og reglugerð nr. 276/2002 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, annarra en örvera. Starfsemin fellur undir afmörkunarflokk 2. 
Til samræmis við reglugerð nr. 276/2002 hefur verið óskað eftir umsögn ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur og Vinnueftirlitsins.

Umhverfisstofnun mun auglýsa ákvörðun sína um útgáfu leyfa síðar.