Stök frétt

Draga þarf úr losun allra atvinnuvega til að standa við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum / Mynd: Canva

Losun frá landbúnaði var um 22% af losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands árið 20221. Til samanburðar var losun vegna vegasamgangna um 33% af losun á beinni ábyrgð Íslands. Ljóst er að draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda allra atvinnuvega, þ.m.t. landbúnaði, til að standa við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. 

Helmingur losunar vegna sauðfjár- og nautgriparæktar

Eins og sjá má á mynd 1 var meira en helmingur losunar frá landbúnaði vegna sauðfjár- og nautgriparæktar (56%). Sú losun frá landbúnaði sem stendur eftir kemur frá áburðarnotkun í landbúnaði (22%), framræstu ræktarlandi2 (12%), hestum (6%) og öðrum uppsprettum (4%).

Losun frá dráttarvélum og öðrum vinnuvélum sem notaðar eru í landbúnaði er ekki talin með í þessum flokki heldur fellur hún undir losun frá orkugeiranum. Sú losun samsvarar þó einungis 4% af þeirri losun sem flokkast undir landbúnað.

 

Mynd 1: Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi 2022 skipt eftir undirflokkum.

Breytingar milli ára í losun frá landbúnaði

Losun frá landbúnaði árið 2022 var u.þ.b. 2,5% minni en árið 2021 (sjá mynd 2) og má að mestu leyti rekja það til fækkunar sauðfjár. Fjöldi sauðfjár dróst saman um 4,4%, eða rúmlega 17.000 dýr, milli áranna 2021 og 2022. 

Sama mynstur má greina á 5 ára tímabilinu milli 2018 og 2022 þar sem fjöldi sauðfjár dróst saman um tæplega 15% eða rúmlega 65.000 dýr. Losun vegna sauðfjár dróst þar af leiðandi saman um 15% á því tímabili. Losun frá öðrum undirflokkum í landbúnaði breyttist hins vegar lítið á tímabilinu. 

 

 

Mynd 2: Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi 1990-2022 skipt eftir losunarflokkum.

Framtíðarþróun í losun frá landbúnaði

Framreikningar Umhverfisstofnunar frá síðasta ári3 gerðu ekki ráð fyrir miklum samdrætti í losun frá landbúnaði fram til ársins 2030. Hins vegar er líklegt að þessir framreikningar muni taka einhverjum breytingum í takt við uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem nú er í vinnslu.

Bætt aðgengi að losunarbókhaldi Íslands

Umhverfisstofnun hefur sett sér það markmið að útskýra umfang og þróun losunar gróðurhúsalofttegunda frá ýmsum geirum til að bæta aðgengi að losunarbókhaldi Íslands í samræmi við stefnu stofnunarinnar. Þessi frétt er sú fyrsta í röðinni og verða fleiri slíkar fréttir birtar á næstunni.

 

1 Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2022.

2 Þessi undirflokkur á einungis við losun sterku gróðurhúsalofttegundarinnar hláturgass (N2O) frá framræstu ræktarlandi. Hins vegar er losun frá framræstu ræktarlandi aðallega vegna koldíoxíðlosunar en hún er talin fram í landnotkunar- og skógræktarhluta bókhaldsins (LULUCF) og er því ekki tekin með í mynd 1.

3 Framreikningar Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda sem birtir voru vorið 2023 byggja á aðgerðaráætlun í loftslagsmálum frá árinu 2020 ásamt fleiri gögnum.

Tengt efni: