Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Guðrún Lilja Kristinsdótttir, nýr framkvæmdastjóri Svansins á Íslandi

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð gleður okkur að nefna þá stóru breytingu sem átti sér stað innan raða Svansins á liðnu ári, þegar Guðrún Lilja Kristinsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra.


Guðrún Lilja hefur starfað hjá Umhverfisstofnun og Svaninum frá lokum árs 2014.

Guðrún Lilja hefur viðamikla reynslu af verkefnum Svansins. Hún hefur komið að vottunarferli allra viðmiðaflokka sem Svanurinn vottar á Íslandi. Guðrún Lilja hefur lengst af unnið í vottunum á prentsmiðjum, ræstiþjónustum, hótelum og veitingastöðum auk þess að hafa unnið við vottun nýbygginga og endurbóta bygginga síðan 2017.

Guðrún Lilja hefur einnig verið virk í norrænu samstarfi tengdum mismunandi viðmiðaflokkum, bæði vegna vottunar og endurvottunarferla. Hún hefur verið í skipulagningu og framsetningu málefna á Umhverfismerkisráðsfundum síðan 2017.

Auk þess gegndi Guðrún Lilja um tíma hlutverki teymisstjóra teymis hringrásarhagkerfis, þess er Svanurinn fellur undir hjá Umhverfisstofnun.

Á sama tíma og við óskum Guðrúnu Lilju innilega til hamingju með stöðuna viljum við þakka Elvu Rakel Jónsdóttur innilega fyrir samstarfið og hennar störf sem framkvæmdastjóri Svansins. Elva Rakel hafði gegnt hlutverki framkvæmdastjóra síðan 2010 ásamt öðrum störfum innan Umhverfisstofnunar, en hefur nú siglt á önnur mið sem framkvæmdastjóri Festu miðstöðvar um sjálfbærni. Við óskum henni velfarnaðar í sínum störfum

Framkvæmdastjórar allra Norðurlandanna hittust á fundi sl. haust. Á myndinni eru frá vinstri, Martin Fabiansen frkv. stjóri Svansins í Danmörku, Guðrún Lilja Kristinsdóttir og Elva Rakel Jónsdóttir núverandi og fyrrverandi frkv.stjórar Svansins á Íslandi, Cathrine Pia Lund frkv.stjóri Svansins í Noregi, Anna Linusson frkv.stjóri Svansins í Svíþjóð, Riikka Holopainen frkv. stjóri Svansins í Finnlandi og Lena Axelson verkefnastjóri.