Stök frétt

Umhverfisstofnun hvetur almenning til að fylgjast með loftgæðum um áramót á loftgaedi.is / Mynd: Unsplash

Áramótum á Íslandi fylgir mikið af einnota vörum.  Hattarnir, skrautið, innisprengjurnar og flugeldarnir gleðja okkur í stutta stund en öllu þessu fylgja einhver umhverfisáhrif.

Almenningur er hvattur til þess að fylgjast með loftgæðum um áramót á loftgaedi.is.

Einnig er vert að nefna að hávaði frá flugeldum getur valdið mikilli hræðslu hjá dýrum og því mikilvægt að takmarka þann tíma sem sprengingar kveða við.

Svifryksmengun

Það sem gleður við flugeldana er öll sú litadýrð sem fylgir þeim. Litirnir eru komnir til vegna bruna mismunandi efnasambanda sem eru notuð til að búa til skotelda. Svifryksmengun er slæmur fylgifiskur flugelda en töluvert svifryk myndast þegar flugeldarnir springa. 

Mengunarefni safnast upp í hægviðri

Hægviðri og stillur valda því að mengunarefni safnast upp í andrúmsloftinu. Ef mikið er sprengt af flugeldum og veðuraðstæður eru óhagstæðar getur flugeldamengun haft áhrif á loftgæði langt fram eftir nýársdegi.  

Stór hópur viðkvæmur fyrir loftmengun

Fólk finnur mismikið fyrir áhrifum loftmengunar af völdum flugelda. Þau sem verða verst úti eru viðkvæmir hópar. Börn og aldraðir tilheyra viðkvæmum hópum en þar eru sömuleiðis þau sem þjást af lungna-, hjarta- og æðasjúkdómum. Í hverri fjölskyldu er yfirleitt einhver sem tilheyrir viðkvæmum hópi. 

Mikilvægt að hirða upp flugeldarusl

Stofnunin vill hvetja til þess að fólk komi flugeldaafgöngum í réttan meðhöndlunarfarveg. Flugeldarusl er ekki endurvinnanlegt og því eiga sprungnir flugeldar að fara í tunnuna fyrir blandaðan úrgang en ósprungnir flugeldar flokkast sem spilliefni. Einnig er hægt að fara með sprungna flugelda á gámastöð í viðkomandi sveitarfélagi.

 

Tengt efni: