Stök frétt

28. Aðildarríkjaþingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP28) lauk í síðustu viku. Nicole Keller og Rafn Helgason, sérfræðingar í teymi losunarbókhalds, sátu samningaviðræður um útfærslur á 6. grein Parísarsamningsins um kolefnismarkaði fyrir hönd Íslands.

Samstaðan sem vonast var eftir um 6. greinina náðist ekki

Það náðist ekki samstaða um marga af þeim þáttum 6. greinar Parísarsamningsins sem voru til umræðu. 

Reglur um 6. greinina voru einnig ræddar á COP26 og 27. Samkomulag um hvernig kerfin ættu að virka í grófum dráttum lá fyrir. Á COP28 átti að útkljá afmarkaðan lista tæknilegra útfærsluatriða en ekki náðist að leysa úr þessum atriðum að fullu.  

Að vissu leyti er hægt að vinna á grundvelli hluta 6. greinarinnar, og ýmis ríki eru byrjuð að skrifa tvíhliða samninga um loftslagsverkefni með hliðsjón af þeim reglum sem nú þegar hafa verið samþykktar í grein 6.2 í Parísarsamningnum. Hinsvegar er það mat ýmissa ríkja að langt sé í land þegar kemur að því að tryggja að samningarnir uppfylli allar þær forsendur sem kunna að vera nauðsynlegar til að markaðirnir þjóni sínum tilgangi. 

Þar sem ekki náðist samhljóða samþykki um margt var ákveðið að halda áfram að ræða mögulegar útfærslur á næstu samningafundum sem munu fara fram í Þýskalandi í júní 2024 og í Azerbaijan í nóvember 2024.

Hvað þýðir: „Með samhljóða samþykki“?

Ákvarðanir á COP ráðstefnunum eru teknar með samhljóða samþykki (e. by consensus). Ekki dugar að kjósa og fá meirihluta atkvæða heldur eru málin rædd fram og aftur þar til enginn mótmælir lengur. Þetta er ekki áreynslulaust enda eru hagsmunir ríkja ólíkir og framtíðarsýn ekki endilega sú sama.

Samþykki allra þarf að nást áður en hægt er að afgreiða mál á COP28.

Sendinefnd Íslands með hlutverk í samningaviðræðum

Starfmenn Umhverfisstofnar voru hluti af sendinefnd Íslands. Sendinefnd Íslands hefur formlegt hlutverk í samningaviðræðum um hin ýmsu viðfangsefni COP28. Sendinefnd Íslands var aðeins lítill hluti þeirra sem tóku þátt frá Íslandi. Þátttaka fyrirtækja og félagasamtaka var þónokkur en hún var með öðru sniði en þátttaka sjálfrar opinberu samningasendinefndarinnar.

Mikilvæg sérþekking á losunarbókhaldi Íslands 

Fulltrúar Umhverfisstofnunar eru sérfræðingar á sviði loftslagsmála. Þeirra verkefni í starfi snúa meðal annars að því að vinna Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. halda utan um losunarbókhald Íslands. Þeirra sérþekking á losunarbókhaldinu var lykilatriði í samningaviðræðum fyrir Íslands hönd um 6. grein Parísarsamningsins.

Starfsmenn Umhverfisstofnunar voru fulltrúar Íslands í samningaviðræðum um kolefnismarkaði.

Nánar um 6. grein Parísarsamningsins

Sjötta grein Parísarsamningsins fjallar um samvinnu ríkja þegar kemur að efndum landsframlaga (þ.e. loftslagsmarkmiða gagnvart Parísarsamningnum) og/eða annarra loftslagsmarkmiða.

Þegar kemur að því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar eða markmið geta ríki annars vegar dregið úr sinni losun eða stuðst við milliríkjasamninga þar sem eitt ríki greiðir fyrir aðgerðir í öðru landi og fær í staðinn að njóta góðs af þeim loftslagsávinning sem til kemur gagnvart efndum sinna loftslagsmarkmiða.Sjötta greinin og þróun hennar tengist því loftslagsskuldbindingum ríkja með þeim hætti að uppgjör þeirra getur að hluta til komið til með milliríkjasamningum á grundvelli þessarar greinar, og myndi svo endurspeglast í losunarbókhaldi þeirra ríkja sem standa að 6. greinar samningum.