Stök frétt

Sunnudaginn 10. desember fóru fulltrúar Umhverfisstofnunar í vísindaleiðangur í friðlandið í Eldey. Markmið ferðarinnar var að meta ástand súlubyggðar í eynni. Með í för voru sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands sem settu upp jarðskjálftamæla. Hópurinn naut aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar. 

Leiðangursstjóri var landvörður á vegum Umhverfisstofnar sem fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar Íslands, taldi dauða fugla, tók myndir til að meta ástand hreiðra og fór yfir tæknibúnað fyrir vefmyndavél. Einnig er fylgst með sprungu í eynni og hún mæld reglulega til að meta gliðnun.  

 

Ekki hægt að fjarlægja plastið 

Súlur nota allskonar efni í hreiðurgerð og endurnýja og bæta við hreiður sín á hverju ári. Hreiðrin gefa vísbendingu um hversu mikið plast er losað í náttúruna og sjóinn.  

Vísindamenn eru sammála um að ekki hægt sé að hreinsa plast úr Eldey án þess að skaða hreiðrin. Eina leiðin til að breyta ástandinu í eynni er að minnka losun plasts í náttúruna.  

Vöktun og rannsóknir eru enn í gangi og fleiri upplýsinga um súlubyggðina munu liggja fyrir á komandi árum. 

 

Strandhreinsun Íslands 

Umhverfisstofnun leiðir verkefni um strandhreinsun. Landverðir og sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar sinna reglulega strandhreinsun í friðlöndum á suðvesturhorni landsins, til dæmis á Lundey, Akurey, í Herdísarvík og Gróttu.  

Um Eldey 

Friðlandið Eldey er klettadrangur 2ha á stærð og er 16 km suðvestan frá Reykjanesvita.  

Í Eldey er ein stærsta og Súlubyggð sem þekkist í heiminum, um það bil 14 til 18 þúsund pör. Á vetrartíma má einnig finna þar fálka og þresti. 

Óheimilt er að fara í Eldey án leyfis Umhverfisstofnunar og til verndar fuglalífi eru skot bönnuð nær eynni en 2 km.