Stök frétt

Rafn Helgason og Nicole Keller, úr teymi losunarbókhalds, eru fulltrúar Umhverfisstofnunar á COP28

Tveir fulltrúar Umhverfisstofnunar sækja 28. Aðildaríkjaþing Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP28 UAE) sem haldið er í Dubai. Þingið stendur til 12. desember nk.

Fulltrúar Umhverfisstofnunar eru þau Nicole Keller og Rafn Helgason, sérfræðingar í teymi losunarbókhalds. Þau eru hluti af opinberri sendinefnd Íslands þar sem fulltrúar ráðuneyta og annarra stofnana sitja einnig.

Samningaviðræður um kolefnismarkaði

Nicole og Rafn verða fulltrúar Íslands í samningaviðræðum um kolefnismarkaði. Þau taka einnig þátt í mikilvægum fundum um gagnsæi í upplýsingagjöf til Rammasamnings Sþ. um loftslagsbreytingar (UNFCCC).

Þau munu einnig taka þátt í hliðarviðburðum og styrkja mikilvæg tengsl okkar við aðrar stofnanir.

Mikilvægt að Ísland taki þátt

Mikilvægt er að sérfræðingar okkar sæki þetta stóra þing sem haldið er árlega til að taka þátt í ákvarðanatöku um loftslagsmál á heimsvísu. Með þátttöku á þessum alþjóðlega vettvangi tryggjum við að 

  • Okkar þekking nýtist í ákvarðanatökuferlinu
  • Við séum upplýst um þróun skuldbindinga og reglna sem við þurfum að fylgja
  • Við sækjum dýrmætan fróðleik um loftslagsmál sem gagnast okkur svo hér á Íslandi við að ná betri árangri

Góður undirbúningur

Undirbúningur fyrir COP28 hófst hér á landi í sumar með fundaröð sem Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Loftslagsráð, Grænvangur og Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar stóðu fyrir. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkir undirbúningsfundir eru haldnir og voru þeir gagnlegir til að kynnast málefnunum sem verða til umræðu á COP28 ásamt þeim fjölbreyttu aðilum sem sækja þingið frá Íslandi.

Til viðbótar við opinberu sendinefndina sem fulltrúar Umhverfisstofnunar sitja í fara einnig fulltrúar almennings og félagasamtaka og fulltrúar atvinnulífsins.

Fylgist með gangi mála

Umhverfisstofnun mun miðla upplýsingum um COP28.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með þessum mikilvæga alþjóðlega viðburði og okkur hlakkar til að deila fróðleiknum sem við munum safna á COP28 með ykkur að þinginu loknu.