Stök frétt

Sjávarútvegurinn á Íslandi er til fyrirmyndar í því að fullnýta sín hráefni og þarf að fara sömu leið þegar kemur að umbúðum / Mynd: Canva

Umhverfisstofnun tók þátt í Sjávarútvegsráðstefnunni þann 2. og 3. nóvember. Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis, fjallaði um umhverfisvænni umbúðir í sjávarútvegi á málstofu sem tileinkuð var umbúðaþróun í geiranum. 

Umhverfisstofnun lagði áherslu á að til þess að flýta innleiðingu hringrásarhagkerfisins þurfi fyrirtæki kjark til að endurhugsa núverandi kerfi og viðskiptamódel. Sjávarútvegurinn á Íslandi er til fyrirmyndar í því að fullnýta sín hráefni og hafa þar meira og minna lokað hringnum. Við þurfum að fara sömu leið þegar kemur að umbúðum, að loka hringnum. 

Flytjendur í málstofunni um umbúðalausnir. Frá vinstri: Birgitta Stefánsdóttir, Umhverfisstofnun, Ólafur Ögmundsson, Háskóla Íslands, Grímur Ólafsson, Matvælastofnun og Sveinn Margeirsson, Brim. Mynd: Sjávarútvegsráðstefnan.

Leiðbeiningar um val og hönnun

Leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um val og hönnun á umbúðum voru kynntar. Þar er sett fram ákveðin forgangsröðun sem fyrirtæki ættu að nýta sér í allri ákvarðanatöku um umbúðir.

Í ákvarðanatöku ætti að forgangsraða að skoða alvarlega hvar er möguleiki á að sleppa alveg umbúðum. Þar sem slíkt er ekki mögulegt ætti að leggja áherslu á að draga úr magni umbúða. Þá að stuðla að endurnotkun umbúða og að setja upp kerfi fyrir margnota umbúðir. Ef einnota umbúðir eru nauðsynlegar leggur stofnunin áherslu á að þær séu bæði endurvinnanlegar og úr endurunnum efnum.

Mynd 1: Forgangsröðun við ákvarðanatöku þegar kemur að umbúðum

Breytingar á umbúðaregluverki Evrópusambandsins

Fjallað var um fyrirhugaðar breytingar á umbúðaregluverki Evrópusambandsins.

Sambandið setti fram tillögu að nýju regluverki í lok árs 2022. Það er ánægjulegt að sjá að áherslur sambandsins eru í góðu samræmi við forgangsröðun Umhverfisstofnunar.

Þar er áhersla á endurvinnanlegar umbúðir sem raunverulega fara í endurvinnslu og að endurunnin efni séu notuð í umbúðaframleiðslu.

Þar má einnig finna kröfur sem gerðar eru til að einfalda og styðja við neytendur þegar kemur að flokkun með samræmdum flokkunarmerkingum og samræmdum merkingum á hlutfalli endurunna efna í umbúðunum.

Önnur atriði úr regluverkinu sem vert er að nefna eru:

  • Lágmörkun og takmörkun á skaðlegum íblöndunarefnum
  • Takmörkun á leyfilegu tómarúmi í flutningsumbúðum
  • Bann við umbúðum utan um ferskt grænmeti og ávexti
  • Bann við smáumbúðum utan um snyrtivöru og utan um matvöru
  • Skylda að kaffihylki og límmiðar á ávexti og grænmeti verði lífniðurbrjótanlegir

Skoða glærur frá kynningunni