Stök frétt

Fransk-íslenska hönnunarfyrirtækið SP(R)INT STUDIO ásamt Nissen Richards Studio bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni um sýningu í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar í Mývatnssveit. Þrjár tillögur voru í lokasamkeppninni eftir forval hjá Ríkiskaupum, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Vatnajökulsþjóðgarði. 

Verndun og vísindi aðalhlutverki 

Sýningunni í gestastofunni Gíg í Mývatnssveit er ætlað að höfða til breiðs hóps, jafnt heimafólks sem innlendra og erlendra gesta. Markmið gestastofunnar er að auka þekkingu gesta á verndarsvæði Mývatns og Láxár og hálendi norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, skilning á ýmsum fyrirbærum í náttúru svæðisins og með því mikilvægi náttúruverndar.  

Lagt er upp með að rauði þráður sýningarinnar verði verndun og vísindi. Saga verndunar og vísinda er bæði gömul og ný á hálendinu og í Mývatnssveit og tilvalið að þræða hana í gegnum söguþráð sýningarinnar, dýpka þannig tengingu gesta við umhverfið og vekja þá til umhugsunar. 

Um hönnunarsamkeppnina 

Þrjár hönnunarsamkeppnir voru auglýstar á evrópska efnahagssvæðinu í apríl 2023 fyrir eftirfarandi þjóðgarða: 

  • Gestastofu Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs á Skútustöðum við Mývatn 
  • Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri  
  • Þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi 

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var ráðgefandi aðili samkeppninnar en Ríkiskaup sáu um framkvæmd hennar. Tvær dómnefndir voru skipaðar, hvor fyrir sitt þrep keppninnar, af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði.  

Af þeim þremur teymum sem valin voru í forvalinu voru tvö íslensk og eitt erlent. Teymin lögðu tillögur sínar fram undir nafnleynd.  

Aðstandendur keppninnar þakka öllum fyrir góða þátttöku og óska SP(R)INT STUDIO og Nissen Richards Studio til hamingju.  

 

Tengt efni: