Stök frétt

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Fulltrúar Umhverfisstofnunar sóttu ráðstefnu Europarc samtakanna dagana 3. - 6. október sl. en ráðstefnan var að þessu sinni haldin í Leeuwarden í Hollandi. 

Hvað er Europarc?

Europarc eru samtök friðaðra landsvæða í Evrópu og er markmið samtakanna að vera vettvangur umsjónaraðila friðlýstra svæða til að deila faglegri reynslu, vinna saman að tæknilegum verkefnum og þróa sameiginleg markmið. Europarc samtökin samanstanda af yfir 100 ólíkum umsjónaraðilum í 40 löndum og yfir 1000 friðlýstum svæðum í Evrópu. 

Ráðstefnan í ár var sérstök að því leyti að Europarc samtökin fögnuðu 50 ára starfsafmæli sínu. Af því tilefni var ungu fólki sérstaklega boðið að vera með og hjálpa til við að skapa framtíðarsýn.

Þátttaka Íslands

Ísland hefur tekið þátt í Europarc frá árinu 1986 og hefur einnig gegnt hlutverki í Nordic-Baltic hópnum sem hefur það að markmiði að deila þekkingu og efla samstarf á milli landa í norður Evrópu.

Ráðstefnan í ár bauð upp á fjölda faglegra fyrirlestra og vinnustofa.  Í fyrirlestrum var meðal annars fjallað um hvernig votlendi geta virkað sem náttúrulegar hindranir, aðferðir við skipulagningu og  stýringu fjölbreyttra útivistar á friðlýstum svæðum og hvernig við þurfum að endurhugsa hvað náttúruvernd þýðir í takt við tímann. Þá var boðið upp á vinnustofur þar sem hægt var að velja úr fjölbreyttum málefnum. Sem dæmi fjölluðu  vinnustofurnar um hvernig nýta má tæknina í stýringu umferðar gesta á friðlýstum svæðum,  hvernig landslag segi sögu og aðferðir við að segja góða sögu. Þá fjallaði ein málstofan um það hvernig nýta má friðlýst svæði til að stuða að góðri heilsu fólks, andlega og líkamlega.  

Ráðstefnugestir gátu valið úr fjölbreyttum vettvangsferðum þar sem í boði var að skoða sögu og náttúru ýmissa svæða og hvernig umsjón og rekstur þeirra fer fram. 

Framlag Umhverfisstofnunar

Boðið var upp á svokallað „market place“ þar sem stofnanir og fyrirtæki kynntu sín friðlýstu svæði, eða verkefni og hugbúnaði sem geta nýst við stýringu og verndun friðlýstra svæða. Umhverfisstofnun var með kynningu á Snæfellsjökulsþjóðgarði og  friðlýstum svæðum í umsjón stofnunarinnar. Fulltrúar Umhverfisstofnunar spjölluðu þar við ráðstefnugesti og fræddu um náttúru og sögu Íslands. 

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Fulltrúar Umhverfisstofnunar, starfsfólk  á sviði náttúruverndar, tók virkan þátt í ráðstefnunni

Alþjóðasamstarf um náttúru- og umhverfivernd er mikilvægt enda eru engin landamæri milli loftslags og lífríkis á jörðinni. Hópurinn sótti fjölbreytta fyrirlestra, vinnustofur og vettvangsferðir. Europarc ráðstefnan hefur gefið starfsfólki Umhverfisstofnunarinnar tækifæri til að læra af öðrum, fá nýjar hugmyndir og verkfæri til að innleiða  í stefnuverkefni og dagleg störf hjá stofnuninni til að bæta umsjón og rekstur friðlýstra svæða á Íslandi. 

Myndasyrpa frá Europarc 2023
Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Allar myndir með frétt: Þórdís Björt Sigþórsdóttir