Stök frétt

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Veiðitímabilið á grágæs og heiðagæs hefst sunnudaginn 20. ágúst og stendur til 15. mars eins og síðustu ár.

Heiðagæsastofninn stendur sem fyrr sterkur þrátt fyrir nokkra fækkun á síðustu árum. Stofnstærðarmat fyrir árið 2021 var um 418.000 fuglar sem var 13.8% fækkun frá fyrra ári. 

Íslenski grágæsastofninn náði hins vegar hámarki árið 2011 og var þá 112.000 fuglar. Síðan þá hefur grágæs fækkað nokkuð og bentu talningar ársins 2021 til þess stofninn væri  65.000 fuglar. 

Á árunum 2010 – 2019 fækkaði grágæs að jafnaði um 6% á ári og í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og Bretlands, í tengslum við AEWA samninginn um verndun sjó- og vatnafugla, stóð til að leggja á skilyrðislaust veiðibann á tegundina. Á fundi aðildarþjóða samningsins 30. september 2022 var hinsvegar samþykkt tillaga Breta um að breyta skráningu íslensk-breska grágæsastofnsins í viðauka samningsins sem myndi heimila þjóðunum að stunda sjálfbærar veiðar úr stofninum að því tilskyldu að fyrir liggi (alþjóðleg) stjórnunar- og verndaraætlun (action plan) ásamt verkáætlun (adaptive management program). Sú vinna er komin í fullan gang og er gert ráð fyrir að henni muni ljúka á árinu 2025. 

Fram að þeim tíma sem áætlunin mun taka gildi hefur verið ákveðið að setja á sölubann á grágæs sem verður endurskoðað ef stofninn fer að taka við sér á ný.

Sölubann

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Með breytingunni er óheimilt að bjóða til sölu eða selja grágæs og afurðir hennar. Einnig er óheimilt að flytja hana út. Heimilt er þó að selja uppstoppaða gæs.

Nánari upplýsingar um reglugerðarbreytingu og eftirlit með sölubanninu má lesa í frétt vef Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. 

Fuglaflensa 

Árið 2022 voru uppi miklar áhyggjur af framgangi fuglaflensu í villtum fuglum á Íslandi, þ.m.t. gæsum.

Þó útlitið virðist vera öllu betra í ár vill Umhverfisstofnun minna á síðu Matvælastofnunar  þar sem finna má upplýsingar um fuglaflensu. Þar má finna leiðbeiningar um hvað skal gera ef villtur fugl finnst dauður eða veikur og grunur er um fuglaflensu. 

Veiðimenn með veiðihunda og aðrir hundaeigendur eru hvattir til að hafa hunda sína í taumi verði þeir varir við dauða fugla á víðavangi.