Stök frétt

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, undirritaði og staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn Spákonufellshöfða þann 16. júní síðastliðinn.

Spákonufellshöfði gengur í sjó fram vestan við byggðina á Skagaströnd. Höfðinn er úr stórgerðu, jökulsorfnu stuðlabergi. Sjófuglar og mófuglar halda til í höfðanum og á fartíma er nokkuð um umferðarfugla í fjörum. Á svæðinu er strjáll melagróður og grösugar mýrar. Undir Spákonufellshöfða var verslunarstaður frá fornu fari. Höfðinn er vinsæll til útivistar og er víðsýnt af honum. Markmiðið með verndun fólkvangsins er að tryggja gangandi fólki frjálsa för um svæðið og jafnframt að vernda jarðmyndanir, gróður og dýralíf þess. 

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um.

Í áætluninni er lögð fram stefnumótun til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára. Áætlunin var unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins Skagastandar.

Áætlunina má finna hér fyrir neðan ásamt frekari upplýsingum um vinnslu áætlunarinnar og upplýsingar um fólkvanginn.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Spákonufellshöfða