Stök frétt

Heildarlosun1 gróðurhúsalofttegunda á Íslandi2 var 14,1 milljón tonn af CO2-ígildum árið 2021 og hefur aukist um 6% frá árinu 1990. Frekar upplýsingar um sögulega losun og framreikninga má finna í samantekt og skýrslum.

Almennt fór losun vaxandi á árunum 1990 til 2008. Í kjölfar efnahagshruns dróst losun saman á árunum 2008-2011 en hélst eftir það nokkuð stöðug til ársins 2020 þegar losun dróst verulega saman í kjölfar heimsfaraldurs. Losun jókst milli 2020 og 2021 og gert er ráð fyrir frekari aukningu árið 2022.

Framreikningar

Núverandi framreikningar3 sýna til lengri tíma samdrátt í heildarlosun sem nemur að meðaltali 0,6% á ári milli 2021 og 2050.

  • Árið 2030 er gert ráð fyrir að losun verði 13,4 milljón tonn CO2-íg.
  • Árið 2040 er gert ráð fyrir að losun verði 12,5 milljón tonn CO2-íg.
  • Árið 2050 er gert ráð fyrir að losun verði 11,7 milljón tonn CO2-íg.


Þessir framreikningar byggja m.a. á spám um þróun mannfjölda, eldsneytisnotkun og verga landframleiðslu og á aðgerðum úr Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum. Vert er að nefna að niðurstöður framreikninga Umhverfisstofnunar taka aðeins til þeirra aðgerða sem unnt var að meta. Líklegt þykir að þegar fleiri aðgerðir taka á sig skýrari mynd muni þær hafa þau áhrif að framreiknaður samdráttur aukist.

Loftslagsdagurinn 4. maí í Hörpu

Ítarlega verður fjallað um þessar tölur á Loftslagsdeginum 4. maí í Hörpu. Hægt að nálgast myndræna framsetningu á gögnum um loftslagsmál í fjölbreyttu samhengi á gagnabirti Umhverfisstofnunar.
_______________

1 Án alþjóðasamgangna.
2 Þann 15. apríl ár hvert (𝑥) skila ríki heims Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda og tölulegum upplýsingum til UNFCCC (og ESB ef við á) fyrir árin frá 1990 til ársins 𝑥−2. Árið 2023 skilaði Umhverfisstofnun skýrslu og gögnum fyrir árin 1990-2021.
3 Framreikningar sem fram koma hér taka mið af aðgerðum sem eru komnar í framkvæmd eða staðfestar þ.e. grunnsviðsmynd.

Tengt efni:
Loft
Losun gróðurhúsalofttegunda
Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum