Stök frétt

Ferðamenn við Gullfoss sumarið 2022.

Ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða er svipað og árið 2021 þrátt fyrir mikla aukningu í komu ferðamanna árið 2022. Meðaleinkunn áfangastaða hækkaði örlítið og færri staðir eru metnir í hættu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða árið 2022.

Ástandsmatið er sameiginlegt verkefni Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. 

66 áfangastaðir með hæstu einkunn

Af 146 áfangastöðum sem voru metnir árið 2022 fengu 45% þeirra yfir 8 af 10 í einkunn. Þeim fjölgaði úr 64 í 66.

Þetta eru áfangastaðir sem geta tekið á móti gestum án neikvæðra áhrifa á umhverfið. Hluti þessara áfangastaða eru ekki mjög fjölsóttir og kann einkunnin að breytast ef mikill fjöldi gesta bætist við þann fjölda sem nú þegar heimsækir staðinn. Aðrir áfangastaðir hafa hlotið innviðauppbyggingu til að taka á móti miklum fjölda og munu að öllum líkindum ekki verða fyrir neikvæðum áhrifum að aukinni gestakomu.

Skoða lista yfir áfangastaði sem standa vel.

Meðaleinkunn hækkar um 0,02%

Meðaleinkunn allra metinna áfangastaða hækkaði í 7,70 árið 2022 úr 7,68 árið 2021.

Það telst góður árangur miðað við mikla fjölgun ferðamanna á áinu.

Innviðauppbygging skilar árangri

8 staðir hækkuðu um 0,5 eða meira í einkunn. Hækkunina má skýra með innviðauppbyggingu sem skilar sér í aukinni vernd og stýringu.

7 staðir lækkuðu um 0,5 eða meira í einkunn. Það má skýra með auknu álagi vegna fjölgunar ferðamanna.

Færri svæði í vanda

Svæðum þar sem hugsanlega hætta er á að þau tapi verndargildi sínu og þörf er á aðgerðum til afstýringar hefur fækkað um einn milli ára og eru nú 14 talsins.

Fimm áfangastaðir náðu að vinna sig út af listanum en fjórir nýir staðir eru komnir inn. Þeir eru: Geysir, Háubakkar, Hveravellir og Stútur.

Fjórir áfangastaðir eru metnir í verulegri hættu á að tapa verndargildi sínu:

  • Suðurnám - Innan friðlands að Fjallabaki.
  • Námuvegur - Innan Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Vigdísarvellir og Vigdísarvallarleið - Innan Reykjanesfólkvangs

Námuvegur stendur í stað en bæði Vigdísarvellir og Vigdísarvallaleið ásamt Suðurnámi innan Friðlands að Fjallabaki lækka í einkunn á milli ára. Skýringin á lækkuninni er að finna í aukningu á gróðurskemmdum vegna aksturs utan vega innan Vigdísarvalla og í tilfelli Suðurnám hefur töf á lagfæringu á göngustíg aukið á gróðurskemmdir á svæðinu.

Skoða lista yfir áfangastaði í hættu.

Ummerki eftir akstur utan vega á Reykjanesi.

Ástandsmat mikilvægt verkfæri

Umhverfisstofnun hefur nú unnið ástandsmat á áfangastöðum innan friðlýstra svæða undanfarin sex ár. Verkfærið gagnast vel við að vernda íslenska náttúru fyrir ágangi og forgangsraða úrbótum innan hvers svæðis fyrir sig.

Með því að fylgjast markvisst með þróun og ástandi á áfangastöðum er hægt að grípa inn í áður en til óefna kemur. Stofnunin vinnur samkvæmt því og leggur sérstaka áherslu á að bæta þau svæði sem koma illa út úr matinu.

Systurstofnanir Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hafa tekið þátt í verkefninu og metið áfangastaði innan sinna svæða. Ástandsskýrslan er samstarfsverkefni stofnananna. Hún veitir upplýsingar um ástand áfangastaða innan allra þjóðgarða á Íslandi og flestra annarra friðlýstra svæða. 

 

Tengt efni: