Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka nýfundnum helli við Jarðböðin í Mývatnssveit í ljósi fágætra og viðkvæmra jarðhitaútfellinga sem þar hafa fundist. Hraunhellar og virkar útfellingar af völdum jarðhita njóta verndunar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd

Lokunin tekur gildi klukkan 12:00 þriðjudaginn 14. mars og gildir í tvær vikur.

Stefnt er að því að endurskoða lokunina innan þess tíma. 

Á meðan lokunin er í gildi getur Umhverfisstofnun, í samráði við rekstraraðila Jarðbaðanna, veitt leyfi fyrir ferðum í hellinn sem tengjast frekari könnun hans og öðrum rannsóknum á honum, en öll önnur umferð verður óheimil. 

Frá því að hellinn fannst hefur umferð um hann verið verulega takmörkuð með það að markmiði að valda sem minnstu raski á þeim jarðminjum sem þar eru að finna. Dreifing útfellinganna um hellinn er slík að erfitt er að ferðast um hann án þess að valda óafturkræfu raski á útfellingunum.

Starfsmenn verkfræðistofunnar EFLU hafa unnið að kortlagningu og skönnun hellisins, ásamt því að afmarka með böndum ákveðna leið um hellisgólfið. 

Lokunin er samkvæmt 25. gr. a laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Tengt efni: