Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun fékk á dögunum ábendingu um hraunhelli sem fannst þegar unnið var að greftri grunnar fyrir nýbyggingar við Jarðböðin í Mývatnssveit. Jarðvinnuverktaki var þar að brjóta klöpp þegar þak hellisins gaf sig og stærðarinnar niðurfall birtist skyndilega.

Sérstakar og viðkæmar útfellingar

Starfsmenn stofnunarinnar hafa farið í tvær vettvangsferðir í hellinn og þykir ljóst að hann geymir sérstakar og afar fágætar jarðmyndanir. Þar til þak hellisins brotnaði var hellinn sennilega heitur og fullur af jarðhitalofti. Við þær aðstæður hafa myndast afar sérstakar og viðkvæmar útfellingar. Óljóst er nákvæmlega um hvaða útfellingar er að ræða, en fágæti og sérstaða þeirra þykir ótvírætt og verndargildi hátt. Útfellingarnar mynda á vissum svæðum í hellinum samfelldar breiður sem þekja óslitið nokkra fermetra.

Mynd: Í hellinum fundust afar sérstakar útfellingar / Umhverfisstofnun.

Hætta á óafturkræfu raski

Frá því hellinn fannst hefur umferð um hann verið verulega takmörkuð með það að markmiði að valda sem minnstu raski á þeim jarðminjum sem þarna er að finna. Dreifing útfellinganna um hellinn er slík að erfitt er að ferðast um hellinn án þess að valda óafturkræfu raski á þeim. Starfsmenn verkfræðistofunnar EFLU hafa unnið að kortlagningu og skönnun hellisins, ásamt því að afmarka með böndum ákveðna leið um hellisgólfið.

Mynd: Erfitt er að ferðast um hellinn án þess að valda óafturkræfu raski / Umhverfisstofnun.

Unnið að skyndilokun

Hraunhellar sem og virkar útfellingar af völdum jarðhita njóta verndunar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga (lög nr. 60/2013). Í ljósi þess, og viðkvæmni myndananna, er Umhverfisstofnun að vinna að því að takmarka umferð um hellinn með skyndilokun, í samráði við landeigendur, sveitarfélag og hagsmunaaðila. Lokunin verður gerð skv 25. gr. a. náttúruverndarlaga.

 

Mynd: Unnið er að kortlagningu hellisins / Umhverfisstofnun.