Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt


Umhverfisstofnun tekur þátt í áhugaverðu ERASMUS+ verkefni sem kallast Grey4Green. Fyrsta liður í verkefninu er þjálfunarnámskeið sem verður haldið á Kýpur fyrir starfsmenn og kennara sem vinna með þessum tiltekna aldurshópi og að umhverfismálum.

Um verkefnið

Grey4Green er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem hófst á þessu ári og markmið þess er að þróa sjálfboðaliðaverkefni í náttúruvernd meðal fólks sem er eldra en 60 ára og efla þennan aldurshóp til virkrar þáttöku í umhverfismálum og stuðla í leiðinni að félagslegum og persónulegum vexti.

Umhverfisstofnun tekur þátt í þessu verkefni ásamt aðilum frá Danmörku, Portúgal, Frakklandi og Kýpur sem hafa reynslu og þekkingu hvert á sínu sérsviði. 

Markmið

Markmið verkefnisins er að búa til verkfæri, verkferla (t.d. handbók) og halda þjálfunarnámskeið til þess að þeir sem hafa áhuga á að skipuleggja eigin sjálfboðaliðaverkefni í náttúruvernd geti nýtt sér þessa þekkingu.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um verkefnið á þessari vefsíðu: https://grey4green.eu/about/

Þjálfunarnámskeið fyrir fullorðinsfræðsluaðila

Fyrsti liður í verkefninu er þjálfunarnámskeið sem verður haldið á Kýpur fyrir starfsmenn og kennara sem vinna með þessum tiltekna aldurshópi og að umhverfismálum.

Gert er ráð fyrir að a.m.k. 20 manns taki þátt í námskeiðinu. Þetta verður frábært tækifæri til að hitta mismunandi evrópska hagsmunaaðila og fá tækifæri til að skiptast á hugmyndum um evrópsk verkefni (umhverfismál, fullorðinsfræðslu og sjálfboðaliðastarf).

Umhverfisstofnun vill bjóða fulltrúum t.d. stofnanna eða samtaka að taka þátt í þessu námskeiði sem haldið verður á ensku.

Umhverfisstofnun mun greiða kostnað vegna ferða, gistingar og fæðis fyrir dagana 8. til 13. maí (8. og 13. maí eru ferðadagar) að hámarki 250.000 kr á mann sem er ERASMUS+ styrkur vegna þessa verkefnis.

Umsóknarfrestur

Þeir aðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eru hvattir til að hafa samband til að fá nánari upplýsingar. Frestur til að senda inn umsókn er 22. mars 2023.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar ogskráning á námskeiðið er hjá Julie Kermarec, juliek@ust.is eða í síma 661-4390.