Dagana 13. – 17. febrúar síðastliðinn fór fram vinnustofa um gerð stjórnunar- og verndaráætlana. Til umfjöllunar voru tvær tegundir, rjúpa og lundi.
Vinnustofunni stýrði dr. Fred A. Johnson, prófessor við Háskólann í Flórída. Þátttakendur voru fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytis, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Fuglaverndar og Skotvís.
Óhætt er að segja að góður árangur hafi náðst á þessari viku. Vinnustofan var mikilvægt skref í að innleiða nýja aðferðafræði sem er gerð til þess að auka gagnsæi og efla traust milli stofnana, hagsmunaaðila og almennings. Á næstu vikum verða teknar saman helstu niðurstöður og tímalína fyrir innleiðingu.
Vinnustofan var haldin í húsakynnum Umhverfisstofnunar að Suðurlandsbraut 24.
Stjórnunar- og verndaráætlanirnar eru unnar eftir aðferðafræði sem kallast Adaptive Management sem hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu á síðustu árum. Aðferðafræðin hefur einnig verið notuð með góðum árangri í Bandaríkjunum á síðustu áratugum. Aðferðafræðin byggir á þverfaglegum grunni þar sem áhersla er lögð á aðkomu hagsmunaaðila í ákvarðanatökuferlinu, aukið gagnsæi og meiri fyrirsjáanleika við ákvarðanatöku.
Dr. Fred A. Johnson er prófessor við Háskólann í Flórída. Hann starfar einnig við Háskólann í Árósum þar sem hann ber ábyrgð á rannsóknum í tengslum við þróun og innleiðingu stjórnunar- og verndaráætlana í Evrópu. Fred er með áratuga reynslu af rannsóknum í stofnvistfræði, tölfræðigreiningum, stofnlíkanagerð og ákvörðunarfræðum.
Mynd: Rjúpa var til umfjöllunar á vinnustofunni um gerð stjórnunar- og verndaráætlana / Ljósmyndari: Jóhann Óli Hilmarsson.