Stök frétt

Olíu skal meðhöndla með varúð og gæta þess að hún komist ekki með neinum hætti út í jarðveg, niðurföll, frárennslislagnir, vatnsföll eða aðra staði þar sem hún getur dreifst um og valdið mengun.

Bent er á að geymsla á olíuefnum í hýbýlum manna s.s. bílskúrum, í smærri útiskúrum eða við húsvegg getur verið mjög varasöm og valdið bæði íkveikju- og sprengihættu. Einnig er með öllu óheimilt að losa hvers kyns olíuefni í niðurföll eða önnur fráveitukerfi og skulu þau ætíð vera geymd í traustum lekabyttum þar sem tryggt er að efnin komist ekki niður í frárennslið. 

Öll vökvakennd olíuefni

Olía er skilgreind sem öll vökvakennd olíuefni í hvaða formi sem er, þar með talin hráolía, bensín, lífeldsneyti, steinolía, gasolía, svartolía, smurolía, jarðbik (asfalt), vegolía, jurtaolía önnur en jurtaolía til manneldis, unnin olía og úrgangsolía. 

Geymsla olíuefna í IBC-umbúðum 

Borið hefur á því að olíuefni séu geymd í IBC-umbúðum (efnabömbum) sem hafa lokið upprunalegum hlutverkum sem flutningsumbúðir efna af ýmsu tagi. Um þessar umbúðir gilda ADR reglur og ber að prófa ílátin reglulega (á tveggja og hálfs árs fresti), hjá aðilum sem hafa til þess gilt leyfi.

Óheimilt er að geyma olíuefni í IBC-umbúðum sem ekki eru framleiddar til geymslu á slíku efni og kemur það fram á umbúðunum sjálfum fyrir hvaða efni viðkomandi umbúðir eru framleiddar. Útskýringar á aflestri upplýsinga á IBC-umbúðunum má finna í ADR handbókinni sem er aðgengileg á vef Vinnueftirlitsins.

Mynd: Óheimilt er að geyma olíuefni í IBC-umbúðum sem ekki eru framleiddar til geymslu á slíku efni.

Geymsla olíuefna í smærri geymum

Allir geymar sem fengnir eru að láni, til kaups eða leigu hjá olíufélögunum eða öðrum aðilum sem selja eða leigja út olíugeyma, lúta reglugerð nr. 884/2017. Litlir geymar sem fengnir eru til skamms tíma og geymdir við fyrirtæki, heimili eða aðra staði þar sem geymslu olíu er þörf, eru skilgreindir sem:

 • Lausageymar (geymir sem ætlaður er til notkunar á tilteknum stað í skamman tíma)
 • Húsageymar (olíugeymir sem er tengdur inn í hús eða verksmiðju og olían er ekki nýtt fyrir farartæki)
 • Neyslugeymar (olíugeymir á athafna- og iðnaðarsvæði sem er ekki í tengslum við olíubirgða- eða bensínstöð en þjónar farartækjum viðkomandi fyrirtækis)

Fyrir þessa geyma þarf almennt ekki sérstakt starfsleyfi. Hins vegar eru þeir háðir eftirliti heilbrigðisnefnda, ef þeir eru ekki hluti af starfsleyfisskyldri starfsemi Umhverfisstofnunar, og um þá gilda eftirfarandi reglur:

Lausageymar

 • Um lausageyma gilda almenn ákvæði reglugerðarinnar um umbúnað og rekstur neyslugeyma.
 • Nýting lausageyma undir olíur, lýsi og grút, íblöndunarefni eða lífræna leysa, sem hafa svipaða eiginleika og olía, er eftirlitsskyld.
 • Óheimilt er að selja olíu úr lausageymi.
 • Öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir skulu tryggðar við rekstur lausageyma.
 • Geymsla á olíu í lausageymi er óheimil innan brunn- og grannsvæðis vatnsverndarsvæðis nema í skamman tíma og skal sérstaklega getið um slíkt í tímabundnu starfsleyfi heilbrigðisnefndar vegna lausageymis. Sama gildir um olíuáfyllingar á tæki og tanka. Flutningsaðili olíu skal hafa fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutninganna.
 • Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun lausageymis, geymslu hans eða áfyllingu á lausageyminn ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða lélegs ástands geymisins.

Húsageymar

 • Um húsageyma gilda almenn ákvæði reglugerðarinnar um umbúnað og rekstur neyslugeyma. Öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir skulu tryggðar við rekstur hans.
 • Rekstraraðilar húsageyma bera ábyrgð á rekstri og umhirðu geymanna og á þeirri mengun sem frá þeim getur stafað.
 • Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun húsageymis og geymslu hans ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða lélegs ástands olíugeymis.

Neyslugeymar

 • Öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir skulu tryggðar við rekstur neyslugeyma.
 • Neyslugeymar sem notaðir eru fyrir áfyllingu á farartæki skulu vera með yfirfyllingarviðvörun eða yfirfyllingarvörn.
 • Afgreiðsluplan tengt í olíuskilju skal vera við neyslugeyma til afgreiðslu á bifreiðar. Það gildir þó ekki um neyslugeyma á lögbýlum og tímabundnar framkvæmdir, svo sem geymslu og lagningu olíumalarefna utan fastra starfsstöðva, efnistöku og veglagningu, nema kveðið sé á um það í starfsleyfi, enda séu geymarnir hvorki staðsettir á svæði í flokki A samkvæmt 1. eða 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. Gengið skal þannig frá neyslugeymum að ekki geti orðið sjálfrennsli frá þeim þegar þeir eru ekki í notkun.
 • Neyslugeymir skal útbúinn með afgreiðslubyssu með útsláttarbúnaði sem lokar fyrir rennsli áður en yfirfylling á sér stað. Afgreiðslubyssur skulu vera þannig útbúnar að ekki sé hægt að festa þær í opinni stöðu milli afgreiðslna.
 • Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun neyslugeymis og geymslu hans ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða lélegs ástands olíugeymisins.

Reglugerð um varnir gegn olíumengun

Í ljósi frétta af verkfallsaðgerðum olíuflutningsbílstjóra og upplýsinga um að almenningur og rekstraraðilar séu að undirbúa söfnun varabirgða eldsneytis, vill Umhverfisstofnun benda á að við hvers kyns geymslu á olíuefnum gilda ákveðnar reglur sem bæði almenningur og rekstraraðilar þurfa að fylgja. 

Í reglugerð nr. 884/2017 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi, kemur fram hvaða kröfur skal uppfylla við geymslu á olíuefnum. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að tryggja fullnægjandi mengunarvarnir á meðhöndlun olíuefna.