Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur stofnað þverfaglegan starfshóp um umhverfisheilsu (e. public health) með það að leiðarljósi að veita faglega ráðgjöf þegar kemur að áhrifum umhverfis á heilsu fólks.  

Áhersla hópsins er að: 

  • Vekja athygli á málaflokknum á víðum vettvangi 
  • Miðla upplýsingum
  • Styrkja samstarf við aðra sambærilega hópa   
  • Auka vísindalega þekkingu sérfræðinga Umhverfisstofnunar um tengsl umhverfisálags á heilsu manna

Hópurinn starfar í samræmi við stefnu Umhverfisstofnunar þar sem áhersla er lögð á heilnæmi.  

Fjölluðu um umhverfismál á Læknadögum

Á dögunum tóku fulltrúar starfshópsins þátt í umhverfisþingi lækna sem var hluti af Læknadögum 2023. Óskað var eftir því að fá erindi frá Umhverfisstofnunin. Einnig voru fulltrúar frá HÍ, Loftslagsráði og Landvernd. Fulltrúar Umhverfisstofnunar fjölluðu um loftmengun á Íslandi og áhrif hennar á heilsu, stöðu fráveitumála á Íslandi, þar sem komið var inn á fjölónæmar bakteríur, og svo að lokum var farið yfir úrgangsmál í víðu samhengi.  

Vonast eftir áherslu á tengsl umhverfis og heilsu

Í kjölfar umhverfisþings lækna var Félag lækna gegn umhverfisvá stofnað. Umhverfisstofnun fagnar því að heilbrigðisstéttir taki að sér stærra hlutverk í að vekja athygli á áhrifum umhverfisþátta á heilsu manna. Vonast er til að starfshópur um umhverfisheilsu Umhverfisstofnunar muni eiga gott samstarf við Félag lækna um umhverfisvá. Einnig er vonast til að fleiri sambærileg félög verði sett á fót í náinni framtíð til að mæta aukinni eftirspurn eftir þekkingu um áhrif umhverfis á heilsu fólks.

Um 800 manns tóku þátt í Læknadögum 2023 sem fram fóru í Hörpu 16. - 20. janúar / Mynd: GAG/Læknablaðið.