Stök frétt

Mynd: Fiskeldi / Unsplash

Í ljósi umræðu síðustu daga vekur Umhverfisstofnun athygli á því að skv. 6. gr. laga nr. 7/1998 er fiskeldi háð starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út.

Starfsleyfi er í raun heimild rekstraraðila til að losa mengandi efni, upp að þeim mörkum sem rúmast innan starfsleyfisins og eru í viðeigandi lögum og reglugerðum. Við útgáfu starfsleyfanna liggur því fyrir sú vitneskja að rekstur viðkomandi fyrirtækis hefur ákveðin áhrif á það svæði sem fyrir fram hefur verið skilgreint  í leyfinu. 

Hins vegar, verði sýnt fram á, með niðurstöðum mælinga, alvarlegum ábendingum, alvarlegum umhverfisslysum eða óhöppum og tilvikum, skv. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá mengandi starfsemi, að mengunin sé meiri en ráð var fyrir gert, eða að áhrif rekstursins á umhverfið sé meiri, þá hefur stofnunin heimild til þess að óska eftir því að rekstraraðili framkvæmi tíðari mengunarmælingar eða efnagreiningar heldur en starfsleyfið gerir ráð fyrir. Þá hefur stofnunin einnig, á grundvelli 5. mgr. 57. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, heimild til að fara í fyrirvaralaust eða annað óvenjubundið eftirlit vegna áðurnefndra atriða. Auk þess er sérstaklega tekið fram í 62. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að eftirlitsaðila sé heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku.

Í starfsleyfum fyrir sjókvíaeldi er ákvæði sett um hvíldartíma svæða á milli eldislota og er það í flestum tilfellum að lágmarki 90 dagar. Rekstraraðila ber að senda Umhverfisstofnun upplýsingar um vöktun eldissvæðanna með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara, fyrir fyrirhugaða útsetningu seiða inn á svæði sem hefur verið í hvíld. Bendi niðurstöður vöktunarinnar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæðinu getur stofnunin einhliða frestað útsetningu seiða. Á meðan svæðin eru í hvíld óskar stofnunin ekki eftir frekari gögnum um svæðið þar sem um skilgreindan hvíldartíma að ræða og svæðunum gefinn tími til endurheimtar. 

Umhverfisstofnun  er með í undirbúningi sýnatökuverkefni sem miða að því að auka aðhald og sannreyna þær mælingar sem rekstraraðilar framkvæma á eigin vegum eða í samvinnu við rannsóknaraðila. Þess má geta að óski Umhverfisstofnun eftir auknum sýnatökum, mælingum eða öðrum gögnum um umhverfisvöktun frá rekstraraðilum, þá eru þær mælingar ætíð gerðar í gegnum þriðja aðila.