Stök frétt

Fulltrúar Íslands á COP 15, frá vinstri Þórdís Björt Sigþórsdóttir, Umhverfisstofnun, Freydís Vigfúsdóttir, matvælaráðuneyti, Snorri Sigurðsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, Eydís Líndal Finnbogadóttir, Náttúrufræðistofnun Íslands, Sigrún Ágústsdóttir, Umhverfisstofnun, Sigríður Svana Helgadóttir, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Á myndina vantar Sigurð A. Þráinsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, formann sendinefndarinnar


 
Fimmtánda ráðstefna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD), er haldin núna dagana 7.-19. desember í Montréal. Þar setjast fulltrúar ríkja niður og vinna í sameiningu að nýrri stefnu og uppfærðri aðgerðaráætlun til að vernda og koma í veg fyrir hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. 
 
Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera og þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar og erfðaefni þeirra. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni gekk í gildi á Íslandi árið 1994 og er hann eitt mikilvægasta verkfærið til að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðar. Til þessa hafa 196 ríki gerst aðilar að samningnum.
 
Eitt af stóru markmiðunum sem eru til umræðu á ráðstefnunni er svokallað „30x30 markmið“, en það snýst um að vernda 30% af landi og 30% af hafi fyrir árið 2030. Á opnunarhátíð ráðstefnunnar hvatti forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, aðildarríkin til að taka stór skref og komast að samkomulagi um „30x30 markmiðin“.  
 
Þá hafa fleiri mikilvægir þættir verið til umfjöllunar eins og nauðsyn þess að samþætta áætlanir um líffræðilega fjölbreytni inn í áætlanir um auðlindanýtingu enda byggir meira en helmingur af vergri landsframleiðslu í heiminum  líffræðilegri á  og heilbrigðum vistkerfum. 
Ísland tekur þátt í fundinum og eru fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og matvælaráðuneytinu. Okkur sem sækjum aðildarríkjaþingið er ljóst að tapi í tegundafjölbreytni í lífríkinu verður ekki snúið við nema með samstilltu átaki allra þjóða. 

Mynd með frétt: Þórdís Björt Sigþórsdóttir