Stök frétt

Talið er að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Það er því mikilvægt að draga úr umhverfisáhrifum af framkvæmdum, bæði stórum og smáum.  

Gott skipulag lykilatriði

Þegar farið er í framkvæmdir er mikilvægt að hafa endurnotkun í huga. „Ég myndi segja að gott skipulag sé algjört lykilatriði í framkvæmdum“ segir Bergþóra Kvaran, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis. „Það skiptir miklu máli að skipuleggja og gefa sér tíma til að meta hvað er hægt að nota áfram og gefa sér einnig tíma í að koma því sem ekki verður notað í réttan úrgangsfarveg, með því að gefa áfram eða flokka á réttan hátt. 

Oft má nota hluti áfram með því að gera við þá og eru þá margar lausnir í boði. „Sem dæmi má nefna gamla eldhúsinnréttingu sem þjónar enn sínum tilgangi en lítur ekki vel út vegna aldurs. Þá er hægt að skoða lausnir eins og að sprautulakka framhliðarnar, pússa upp borðplötuna eða skipta út höldunum“ segir Bergþóra. 

Notaðar byggingavörur

Einnig getur verið í boði að versla notaðar byggingarvörur. Erlendis tíðkast það að til séu heilu byggingavöruverslanirnar sem selja byggingarefni til endurnota. Hér á landi erum við ekki svo langt komin en þó eru nokkur dæmi um slíka þjónustu: 

Efnisveitan – Vefsíða sem bíður upp á notaðar byggingarvörur eins og hurðir, salerni, skápa, parket og fleira. Þar má einnig finna húsgögn, hillur fyrir atvinnurými og fleira. 

Efnismiðlun Sævarhöfða og Efnismiðlun Breiðhellu – Facebook síður sem SORPA heldur úti þar sem auglýstar eru notaðar vörur; byggingarvörur, húsgögn og fleira. 

Góða hirðirinn þekkja flestir en þar fæst mikið úrval af notuðum húsgögnum og öðrum nytjavörum og nú er hægt að skoða vöruúrvalið á netinu.  

Mikilvægt að auka eftirspurn eftir notuðum vörum

„Vandamálið er að hér á landi hefur ekki tíðkast að endurnota byggingarvörur en á meðan eftirspurnin er ekki til staðar þá er ólíklegra að markaðurinn bjóði uppá vöruna“ segir Bergþóra.  

Það gæti þó breyst á næstu árum með hertum reglum í byggingarreglugerð en einnig hertum reglum í umhverfisvottunum bygginga. Í nýjum viðmiðum norræna umhverfismerkisins Svansins fyrir nýbyggingar er stefnt að því að gera kröfu um ákveðið hlutfall af endurnotuðum byggingarefnum fyrir nýbyggingar.

„Stefnt er á að kröfurnar taki gildi í janúar 2023 og það verður áhugavert að sjá hvort þessar nýju kröfur munu hafa í för með sér aukna eftirspurn eftir notuðum byggingarefnum á almennum markaði og þá vonandi aukið framboð í kjölfarið“ segir Bergþóra. 

Viðhöldum auðlindum í lokaðri hringrás

Til að bæta auðlindanýtingu er mikilvægt að koma í veg fyrir myndun úrgangs og viðhalda auðlindum í lokaðri hringrás.  

Ein af lykil aðferðum til að takmarka byggingarúrgang er einmitt endurnotkun og endurnýting.  

Endurnotkun er hvers kyns aðferð þar sem vörur, íhlutir eða jafnvel byggingar, sem eru ekki úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.  

Endurnýting er aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns annars staðar. 

Byggjum grænni framtíð

Stjórnvöld hafa sett af stað samstarfsverkefni sem kallast Byggjum Grænni framtíð. Í því felst meðal annars að greina losun byggingariðnaðarins á Íslandi en einnig setja fram markmið og aðgerðir til að draga úr losun til ársins 2030.

Opinn fyrirlestur um umhverfisvænni framkvæmdir

Þriðjudaginn 1. nóvember kl. 12:15 - 13:00 mun Bergþóra flytja fyrirlestur fyrir almenning í beinu streymi um umhverfisvænni framkvæmdir og hvernig þær geta stuðlað að heilsusamlegra heimili.

Nánar um fyrirlesturinn  

 

 

Tengt efni: