Stök frétt

Mynd: Ólafur K. Nielsen

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur gefið út fyrirkomulag rjúpnaveiða fyrir árið 2022. Þannig verður veiðitímabilið á þessu ári frá 1. nóvember til og með 4. desember. 

Heimilt verður að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en eins og síðustu ár er veiðibann á miðvikudögum og fimmtudögum. 

Ekki verður heimilt að hefja veiði á rjúpu fyrr en kl. 12.00 þá daga sem heimilt er að veiða og skal veiði eingöngu standa á meðan birtu nýtur.  

Í ákvörðun ráðherra er ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Eru veiðimenn um allt land hvattir til að takmarka veiðar sínar í ljósi bágrar stöðu rjúpnastofnsins.  Þá eru veiðimenn á Norðausturlandi beðnir um að sýna sérstaka hófsemi vegna viðkomubrests á svæðinu. 

Í mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins fyrir árið 2021 kemur m.a. fram að stofninn, sem stendur höllum fæti, telji um 297.000 rjúpur. Náttúrufræðistofnun leggur mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirri viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og afli verði ekki umfram um 9% af veiðistofni (26.000 fuglar).  

Umhverfisstofnun bendir á að almennt hafa markmið veiðistjórnunar náðst þegar stofninn er sterkur en veiðar farið fram úr ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands þegar stofninn er veikur (sjá mynd). Þetta þýðir að þegar stofninn er lítill er sóknargeta og eftirspurn það mikil að fjöldi veiðidaga er ekki nægilega gott stjórntæki til að vega upp á móti. Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands sýna að fækka þyrfti veiðidögum í u.þ.b. þrjá til að tryggja að ekki sé veitt umfram ráðgjöf þegar stofninn er veikur. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að veiðimenn gæti fyllstu hófsemi við rjúpnaveiðar. 

Mynd: Veiðar á rjúpum og ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands 2005 – 2021. 

Með framangreint að leiðarljósi leggur Umhverfisstofnun þunga áherslu á það að hver veiðimaður felli ekki fleiri en sex rjúpur á komandi tímabili.

Frekar má lesa um málið á vef umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytisins.