Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að breytingum á starfsleyfi Als Álvinnslu ehf. Fyrirhugað er að gera ýmsar breytingar á starfsleyfinu og er starfsleyfið því endurskrifað eins og um nýtt starfsleyfi væri að ræða.

Þegar hefur auglýst tillaga um breytt starfsleyfi farið í auglýsingu og var frestur til að skila umsögnum til og með 8. ágúst 2022. Að mati Umhverfisstofnunar þarf nú að hefja auglýsingaferlið að nýju. Breytingin kemur til vegna breyttra áforma rekstraraðila sem óskað hefur eftir að hámarksmagn af álgjalli sem taka megi í vinnslu verði 15.000 tonn á ári sem er eins og í núverandi starfsleyfi.

Rétt er að taka það fram að þær athugasemdir sem fram komu í fyrri auglýsingu eru áfram í fullu gildi og ekki er þörf á að endurtaka þær.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að heimilað verði að vinna ál úr allt að 15.000 tonnum á ári af álgjalli sem til fellur hjá álverum. Í eldra starfsleyfi var eingöngu gefin heimild til að vinna ál úr álgjalli með saltferli (með íblöndun salts (Na og K söltum)) en í tillögu að nýju starfsleyfi er gert ráð fyrir að heimilt sé að vinna með saltlausum ferli.

Breytingartillagan felur í sér að uppfyllt eru skilyrði 14. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um að taka tillit til allra nýrra eða uppfærðra BAT-niðurstaðna, í þessu tilfelli niðurstaðna um bestu aðgengilega tækni vegna iðnaðar með járnlausan málm. Þetta felur í sér allmargar breytingar, bæði á starfsleyfisskilyrðum og vöktun, til samræmis við reglur á Evrópska efnahagssvæðinu.

Tillagan ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 17. ágúst til og með 16. september 2022. Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (ust@ust.is) merktar UST202008-210. Umsagnir skulu vera á íslensku og öllum er heimilt að senda umsögn. Umsagnir verða birtar við útgáfu starfsleyfisins nema annars sé óskað. Frestur til að skila umsögnum er til og með 16. september 2022.

Tengd skjöl:
Umsókn um starfsleyfi
Auglýst starfsleyfistillaga
Grunnástandsskýrsla lóðar
Skýringarmynd af vinnsluferli