Stök frétt

Í sumar hafa hópar sjálfboðaliða unnið að endurbótum á þrepastæðum í bröttum brekkum Neðri-Hveradala í Kerlingarfjöllum. Unnið hefur verið að því að skipta út einföldum þrepum fyrir efnismeiri ramma úr timbri með það að markmiði að gera þrepastæðurnar öruggari og minnka um leið viðhaldsþörf.

Er þetta annað sumarið í röð þar sem unnið er að þessu verkefni og hefur nú verið lokið við fyrstu þrepastæðuna eftir að gengið er niður frá bílastæðinu í Hveradölum. Eftir að gömlu þrepin eru tekin upp þarf að jafna út undirlagið fyrir hvern nýjan ramma og er allt verkið unnið í handavinnu. Sjálfboðaliðarnir eru á vegum ICV sjálfboðaliðasamtakana, en í sumar hefur Umhverfisstofnun einnig fengið aðstoð frá sjálfboðaliðum á vegum SEEDS samtakana í gegnum samstarf við rekstraraðila Hálendismiðstöðvarinnar í Kerlingarfjöllum. Sjálfboðaliðar hafa í sumar stikað nýjar gönguleiðir, bætt stikur þar sem við á og málað þær, unnið að afmörkun bílastæða og gönguleiða, ásamt því að hafa lagað göngubrýr innan verndarsvæðisins.

Kerlingarfjöll og nærliggjandi svæði voru friðlýst sem landslagsverndarsvæði sumarið 2020. Svæðið er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna á miðhálendi Íslands. Talningar Umhverfisstofnunar sýna að yfir 20.000 gestir heimsóttu fjöllin sumarið 2022 og umferðin ár virðist heldur meiri þrátt fyrir miklar framkvæmdir sem eiga sér nú stað hjá rekstraðilum hálendismiðstöðvarinnar. Mikill meirihluti gesta heimsækir Hveradali þar sem finna má eitt merkilegasta og öflugasta jarðhitasvæði landsins. Umhverfisstofnun sinnir landvörslu á svæðinu frá júní og fram í september.